Tryggvagata endurgerð frá Pósthússtræti að Lækjartorgi  | Reykjavíkurborg

Tryggvagata endurgerð frá Pósthússtræti að Lækjartorgi 

fimmtudagur, 31. maí 2018

Framkvæmdir við endurgerð Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Lækjartorgi hefjast í byrjun næstu viku og verður lokað fyrir umferð um Tryggvagötu á þessum kafla þar til verki lýkur í byrjun október. Bílaumferð verður beint um Geirsgötu.

  • Hafnarstræti og Tryggvagata.
    Séð yfir Hafnarstræti og Tryggvagötu. Búið er að endurgera Hafnarstræti en nú eru framkvæmdir að hefjast við endurgerð Tryggvagötu frá Pósthússtræti að Lækjargötu.
  • Hið nýja torg við Pósthússtræti og Tryggvagötu sem hlotið hefur nafnið Bæjartorg.
    Hið nýja torg við Pósthússtræti og Tryggvagötu sem hlotið hefur nafnið Bæjartorg.
  •  Bæjartorg verður til
  • Steinbryggja og Tryggvagata endurgerðar
  • Kolagata og Tónagata eru nýjar göngugötur
  • Hluta Tryggvagötu og safnstæði fyrir hópbifreiðar verður lokað tímabundið

Þá munu einnig hefjast framkvæmdir við Steinbryggju, en svo heitir nú sá kafli Pósthússtrætis sem er á milli Tryggvagötu og Geirsgötu. Sú gata hefur verið lokuð bílaumferð vegna framkvæmda á aðliggjandi byggingareit. Á framkvæmdatíma verður hún að mestu opin fyrir gangandi vegfarendum með einhverjum undantekningum. Inni á byggingarreitnum er einnig að hefjast vinna við frágang nýrra göngugatna sem fengið hafa heitin Kolagata og Tónagata.

Bæjartorg, þar sem Bæjarins bestu hafa verið með söluskýli, verður einnig endurgert samtímis. Bæjarins bestu fá framtíðarstað á Bæjartorgi að framkvæmdum loknum.

Ferðamönnum vísað veginn

Framkvæmdirnar munu óneitanlega hafa áhrif á mannlífið í miðborginni og verða gerðar sérstakar ráðstafanir til að beina gangandi vegfarendum um öruggar gönguleiðir. Skilti verða sett upp á nokkrum stöðum til að vísa veginn og verða þau einnig á ensku vegna þess mikla fjölda ferðamanna sem er á þessum slóðum.

Safnstæði fyrir hópbifreiðar í Tryggvagötu verður óvirkt meðan á framkvæmdum stendur og upplýst um það á fundi með samtökum ferðaþjónustunnar í maí.  Vefsíða með upplýsingum um rútustoppistöðvar í miðborginni hefur verið uppfærð.  Einnig er hægt að nálgast upplýsingar á vefsíðunni busstop.

Kalkofnsvegur tekinn í notkun í áföngum

Samhliða þessum framkvæmdum er unnið að lokafrágangi á Kalkofnsvegi og Geirsgötu, en ekki er gert ráð fyrir frekari truflunum á umferð vegna þeirra. Kalkofnsvegur verður tekinn í notkun í áföngum og í lok vikunnar verður umferð hleypt á nýjan kafla, vestari akrein,  frá Sæbraut að Geirsgötu.  Þá verða einnig virkjuð ný umferðarljós á gatnamótum Geirsgötu og Kalkofnsvegar virkjuð í lok vikunnar. Ljósastýring verður stillt til að mæta umferðarflæði um breytt gatnamót.

Upplýsingasíða í Framkvæmdasjá Tryggvagata, Steinbryggja og Bæjartorg >