Torgið Kænugarður formlega vígt- „Í samstöðunni verður til kærleikur“

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vígði skiltið ásamt fulltrúum Support for Ukraine

Torgið Kænugarður, sem stendur á horni Garðastrætis og Túngötu, gegnt rússneska sendiráðinu, var formlega vígt í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri festi upp nýtt skilti í tilefni þessa ásamt fulltrúum samtakanna Support for Ukraine, en listafólkið og hjónin Óskar Hallgrímsson og hin úkraínska Mariika Lobyntseva hönnuðu skiltið.

Kveikjan að ákvörðun um að nefna torgið eftir Kænugarði var innrás Rússa í Úkraínu og var nafngiftin samþykkt einróma í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar, enda mikill vilji til að sýna samstöðu með úkraínsku þjóðinni. Sagði Dagur að gjörningnum væri ætlað að styrkja tengslin við Úkraínu. „Þetta hefur fyrst og fremst táknræna þýðingu. Þetta stöðvar ekki stríð og linar ekki þjáningar en undirstrikar stuðning Reykjavíkur við Kænugarð og stuðning Íslendinga við Úkraínu,“ sagði hann. „Og kannski undirstrikar líka að við þurfum að vera tilbúin að standa með Úkraínu og taka Úkraínufólki opnum örmum eins lengi og stríðið stendur.“ Við þetta tilefni tilkynnti Dagur einnig að Úkraínumenn yrðu heiðursgestir á Menningarnótt sem fram fer 20. ágúst næstkomandi. 

Par í ástinni og listinni

Óskar og Mariika búa í Kænugarði en voru nýlega hér á landi vegna myndlistarsýningar sinnar Ljómandi þægilegt í Gallery Port og skoðuðu þá torgið sem nú er kennt við Kænugarð.

Óskar segir frá því að þau Mariika hafi kynnst á Photobook Festival og stutta útgáfan er að hann féll bæði fyrir borginni og stúlkunni. „Og síðan höfum við verið par í ástinni og listinni. Það hefur mótað listsköpun okkar að við viljum ekki sýna hryllinginn á bak við stríðið í Úkraínu heldur viljum við nálgast það með fegurð eða krúttleika“. Þau segja að þrátt fyrir stríð sjái þau mikla fegurð í landinu. Ekki síst í fólkinu því á milli íbúa hafi myndast svo sterk samstaða og samkennd. „Öllu er ýtt til hliðar til að standa saman í styrjaldarástandi. Í samstöðunni verður til kærleikur sem er mjög fallegur. Þetta vildum við endurspegla í sýningunni í Gallerí Port og líka í skiltinu sem við hönnuðum fyrir Kænugarð,“ segja þau.

Þau segja líka að fólk not kímni til að takast á við ástandið. Óskar segir að Úkraínumenn og Íslendingar séu á margan hátt líkir og kímnigáfan svipuð. Mariika tekur undir það og segir hafa verið auðvelt fyrir sig að kynnast fólki á Íslandi og skilja það. Gleðin sem hægt er að sjá í sköpun þeirra ríkir augljóslega á milli þeirra líka. Á torginu berst talið að plöntum en Óskar kveðst hafa mikla ást á þeim og að oft ferðist hann með plöntur. „Ég heilsa þeim sérstaklega á ferðum mínum og svo tek ég líka oft með mér nokkrar plöntur til að hugsa um og gæða lífið fegurð“.

Það var ekkert hik á þeim varðandi að snúa aftur til Kænugarðs eftir sumarfrí. Að þeirra sögn er friðsælt í borginni og hún fjarri átökum. Óskar hefur tekið ljósmyndir síðan stríðið hófst, stundum á miklum átakasvæðum og birtir þær meðal annars á Instagram reikningi sínum

Vildu merkja torgið með skemmtilegum hætti

Um skiltið sem nú hefur verið vígt segja þau: „Kyiv er skipt í tvo helminga af Dnieper ánni, sem víkingarnir sigldu upp eftir og stofnuðu Kænugarð. Áin er neðst á skiltinu og hægra megin er nýja Kyiv með íbúðabyggingum og vinstra megin gamla Kyiv með kirkjunum og klassíska arkitektúrnum. Blómin hægra megin minna á hversu ótrúlega græn og falleg borgin er og á vinstri jaðri sjást laufblöð kastaníutrésins sem er merki Kyiv, en trén má sjá um alla borgina. Kastaníutrén gera haustin svo skemmtileg því það má finna hnetur liggjandi um allt. Svo er það auðvitað Metró-ið eða Borgarlínan sem tengir alla hluta borgarinnar saman og er mjög einkennandi fyrir hana.  Á skiltinu er líka sólin, því það er eiginlega alltaf gott veður í Kyiv og þegar sólin skín þá glansar borgin öll. Það má segja að skjöldurinn sé okkar útgáfa af skjaldarmerki Úkraínu. Við vildum að merking torgsins væri skemmtileg með miklum leik og þægileika, þar sem það er líka einkennandi fyrir okkar listsköpun.“