Torg í biðstöðu 2019 - verkefni og viðburðir

Samgöngur Skipulagsmál

Mynd frá loftslagsmarkaði

Á hverju sumri eru borgarrýmin glædd lífi með fjölbreyttum verkefnum undir heitinu Torg í biðstöðu. Laugardaginn 29. júní opnar Bás – Loftslagsmarkaður og þakbar á þaki Traðarkots.

Verkefnin í Torg í biðstöðu að þessu sinni eru:

Bás – Loftslagsmarkaður og þakbar á þaki Traðarkots

Annan hvern laugardag í sumar verður loftslagsmarkaður á Traðarkotsþaki. Tilgangur markaðsins er að vekja athygli á loftslagsmálum og hvetja til ábyrgrar neysluhegðunar. Á hverjum markaðsdegi verða ólík þemu en fyrsta þemað þann 29.júní er flóamarkaður. Þann 13.júlí verður listamarkaður, 27.júlí tombóla, 10.ágúst plöntumarkaður og þann 24. ágúst á menningarnótt verða tónleikar. fyrir markaðnum standa þau Ágústa Sveinsdóttir, Ólafur Daði Eggertsson, Hulda Ragnhildur Hjálmarsdóttir og Hildur Helga Pétursdóttir. Viðburður á facebook

Galop náttúrunnar –Tröllskessan í Elliðaárdal

Það fór einu sinni skessa í dalinn
Hún var blaut og eilítið kalin
í leit að sól
hún rak upp gól
að steini hún varð. Er hún galin?

Nína Margrét Bessadóttir

Þau Arngrímur Guðmundsson, Fríða Katrín Bessadóttir og Bergur Ari Sveinsson standa fyrir tréskúlptúr af skessuhaus í Elliðaárdalnum. Markmiðið með verkinu er að fá fólk til að staldra við í fallegri náttúru og hugsa um gömlu íslensku ævintýrin. Bæði börn og fullorðnir eru hvött til að finna skessuna og gera sér glaðan dag í Elliðaárdalnum. Kynning á Instagram

Sólgarðar

Sólgarðar er framhaldsverkefni frá því sumarið 2018 þarsem íbúum borgarinnar eru kynnt handbrögð við borgarbúskap. Hvað er best að rækta? Hvernig? og hvar? Umsjón með verkefninu hafa þær Steinunn Garðarsdóttir, Hlíf Böðvarsdóttir og Guðrún Heiður Ísaksdóttir. Fylgjast má betur með dagskrá verkefnissins á facebook síðu þeirra:

Popup yoga Reykjavík

Popup yoga er verkefni sem flestum Reykvíkingum ætti að vera orðið kunnt. Umsjón hefur Popup yoga Reykjavík. Staðið er fyrir jóga viðburðum víðsvegar um alla borg í sumar og hægt er að fylgjast með komandi viðburðum á facebook síðu pop-up yoga.

Kvöldfriður

Hingað og þangað stendur fyrir fjórum rólegum jógaviðburðum á dvalarsvæði milli Rauðalækjar og Kleppsvegs. Viðburðinum er ætlað að hvetja til aukinna samskipta íbúa í hverfinu og hvetja til aukinnar notkunnar á svæðinu. Frekari upplýsingar um viðburðina má finna á síða Kvöldfriðar. 

Borðtennisborð

Þau Signý Jónsdóttir, Arnaldur Bragi Jakobsson og Jóhann Ingi Skúlason eru í óðaönn að útbúa útiborðtennisborð sem verður komið fyrir á Bernhöftstorfu og Miðbakka. Þar verður gestum og gangandi boðið að nýta sér borðin til leiks. Borðin verða tilbúin á næstu dögum og verður auglýst síðar á síðu Torga í biðstöðu.