Tónlistarborgin Reykjavík tilnefnd til Music Cities Awards

Menning og listir Mannlíf

""

Tilnefningin er fyrir heildrænan stuðning við tónlist í borginni sem saman stendur af hinum ýmsu verkefnum á síðasta ári og fyrrihluta þessa árs. Tilnefningin er í flokknum "Best Use of Music in Towns & Cities (Under 500k Population).

Verkefnin sem um ræðir eru viðskiptahraðallinn Firestarter fyrir tónlistartengdar hugmyndir, fræðsluverkefnið Hitakassinn fyrir ungar hljómsveitir sem komust í úrslit Músíktilrauna, málþing um tónlistartengda ferðamennsku, tónlistarsmiðja fyrir konur í samstarfi við Söguhring kvenna, Elskum plötubúðir og Úrbótasjóður tónleikastaða í Reykjavík ásamt fræðslu, stuðningi og samstarfi við tónleikastaði í borginni. Flest þessara verkefna eru unnin í nánu samstarfi við hina ýmsu aðila í íslensku tónlistar- og menningarlífi en Tónlistarborgin Reykjavík hefur frá upphafi verkefnisins lagt mikla áherslu á samstarf og samvinnu ólíkra aðila.

 

Music Cities Awards eru alþjóðleg verðlaun með það að markmiði að sýna fram á mikilvægt hlutverk tónlistar í heiminum með því að vekja athygli á og veita viðurkenningu fyrir framúrskarandi verkefni þar sem tónlist er notuð til að ná fram efnahagslegum, samfélagslegum og menningarlegum breytingum í borgum og bæjum um allan heim. Verðlaunin verða veitt 23. september 2020. Upphaflega átti afhending verðlaunanna að fara fram í borginni Denver í Colorado-fylki í Bandaríkjunum en vegna heimsfaraldurins verður afhendingin alfarið rafræn með spennandi dagskrá allan daginn þar sem pallborð sérfræðinga ræðir efni er tengist hverjum verðlaunaflokki og afhendingu verðlauna í lok hvers pallborðs. Dómnefnd Music Cities Awards er ekki af verri endanum er þar er að finna afar fjölþjóðlegan hóp sérfræðinga, þ.á.m Richard Florida prófessor við University of Toronto og höfund bókarinnar The Rise of the Creative Class

 

Tónlistarborgin Reykjavík er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar með það að markmiði að efla Reykjavík enn frekar sem tónlistarborg með því að koma á fót öflugu stuðningskerfi og skapa hagstæð skilyrði fyrir gróskumikið tónlistarlíf. Verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar er María Rut Reynisdóttir.

 

Frekari upplýsingar um Music Cities Awards er að finna hér.