Tónleikar, zumba og miðbæjarflot á Sundlauganótt

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Frítt verður í sund í tólf sundlaugum á höfuðborgarsvæðinu á Sundlauganótt Vetrarhátíðar frá kl. 17 - 22  í kvöld.  Í sundlaugunum verðar alls konar viðburðir í boði eins og tónleikar, zumba og miðbæjarflot.

Sundlauganótt verður haldin í kvöld, laugardagskvöldið 9. febrúar 2019, en þá verður frítt í sund frá klukkan 17 til 22 í tólf sundlaugum höfuðborgarsvæðisins. Þær laugar sem taka þátt í Sundlauganótt eru: Laugardalslaug, Vesturbæjarlaug, Sundhöll Reykjavíkur, Breiðholtslaug, Klébergslaug, Grafarvogslaug, Árbæjarlaug, Salalaug, Lágafellslaug, Seltjarnarneslaug, Ásgarðslaug, Ásvallalaug.

Boðið verður upp á fjölbreytta viðburði í laugunum og munu gestir fá að upplifa einstaka og óvenjulega kvöldstund í mögnuðu myrkri. Tónlist, dans og leikhús verða allsráðandi, þar sem gestir eru hvattir til að taka þátt með því að dansa, syngja eða slaka á og njóta stundarinnar.

Í Sundhöll Reykjavíkur verður boðið upp á miðbæjarflot í umsjón Ellýjar Ármannsdóttur flotþerapista sem ætlar að stýra kyrrlátu og heilandi samfloti í innilauginni. Flothettur verða á staðnum. Kósýheit og kyndlar á útisvæði.

Í Laugardalslaug verður kayak Í barnalauginni sem krakkar fá að prófa með aðstoð félaga úr Kayakklúbbnum. Þar verður einnig sundkeppni í flugsundi, tónlist, skemmtun og ljósasýning. Ennfremur verður boðið upp á jóga í vatni undir ljúfum tónum DJ Kjerúlf.

Í Grafarvogslaug verður Circus Íslands með glæsilega sýningu fyrir alla fjölskylduna. Jóhann Helgason mun spila fjöruga harmónikkutónlist, Korpusystkin, kór Korpúlfa, syngja nokkur lög og loks tekur Bræðrabandið nokkur lög á harmónikku og sög.  Noðurljósaflot undir stjórn Gyðu Dísar flotþerapista verður svo í innilauginni undir norðurljósasýningu. Flothettur á staðnum.

Zumba, plötusnúðar, töframenn, Júlladiskó og vatnapóló - það verður eitthvað fyrir alla í sundlaugunum á Sundlauganótt Vetrarhátíðar. Umfram allt verður samt boðið upp á notalega stemningu í sundlaugunum. Góða skemmtun!

Nánari dagskrá