Tjarnarbíó fær aukinn stuðning frá Reykjavíkurborg

Menning og listir Mannlíf

""

Tjarnarbíó, heimili sjálfstæðra sviðslista, fær aukinn stuðning frá Reykjavíkurborg en samningur þar að lútandi hefur verið samþykktur í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði og borgarráði.

Markmiðið með rekstri Tjarnarbíós er að skapa miðstöð fyrir sviðslistir og aðra menningarviðburði og voru haldnar 240 sýningar í Tjarnarbíói á síðasta leikári. Leiksýningar voru þar í meirihluta en einnig voru haldnar barnasýningar, danssýningar, tónleikar, uppistand og fleira. Gestir voru yfir 24 þúsund.

Framlag Reykjavíkurborgar til reksturs Tjarnarbíós verður 20 milljónir króna á þessu ári og eykst um 5 milljónir frá síðasta ári. Nýr samningur gildir til þriggja ára og verður framlagið komið upp í 22 milljónir árið 2022. Í samningnum er kveðið á um að Tjarnarbíó skuli halda áfram að vera einn meginvettvangur nýsköpunar í íslenskum sviðslistum en í menningarstefnu Reykjavíkurborgar segir meðal annars að borgin skuli hlúa að grasrótar- og tilraunastarfsemi í listum og menningu. Í samningnum er einnig lögð áhersla á að Tjarnarbíó sinni listuppeldi barna og unglinga.

Reykjavíkurborg hefur stutt við starfsemina í Tjarnarbíó með þriggja ára samningum frá árinu 2013 og hefur starfsemin síðan þá vaxið ár frá ári og sýningar fengið viðurkenningar og verðlaun. Húsnæðið er í eigu Reykjavíkurborgar. Sjálfsaflafé Tjarnarbíós hefur verið um 60% af rekstrarstyrkjum. Fjöldinn allur af hátíðum í Reykjavík nýta sér aðstöðuna í Tjarnarbíó, svo sem barnamenningarhátíð, Reykjavík Dance Festival, Hinsegin dagar og Listahátíð í Reykjavík. Reykjavíkurborg styður einnig við rekstur Leikfélags Reykjavíkur í Borgarleikhúsinu.

Tjarnarbio.is

Tjarnarbíó á Facebook