Tilraun hafin í söfnun glers á grenndarstöðvum

""

Gler er hægt að endurvinna og allt of mikið af því fer til spillis í dag. Reykjavíkurborg hefur því hafið tilraun á söfnun glers á grenndarstöðvum.

Markmiðið tilraunarinnar er að skoða forsendur þess að endurvinna gler en í dag er gleri safnað með steinefnum og notað sem burðarlag og þannig endurnýtt. Tilraunin er jafnframt liður í að auka gæði moltu sem unnin verður í gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. sem ætlunin er að reisa í Álfsnesi.  

Skógarsel, Laugardalslaug og Kjarvalsstaðir

Í byrjun verður söfnunargámum undir glerumbúðir komið fyrir á þremur grenndarstöðvum við Skógarsel, Laugardalslaug og Kjarvalsstaði. Í gámana má skila hvers konar gleri sem fellur til á heimilum, s.s. sultukrukkum, glerflöskum án skilagjalds og öðrum ílátum úr gleri. Glerið má hvort sem er vera glært eða litað en þarf að vera hreint og ílát tóm.  

Talið er að árið 2014 hafi rúmlega eitt þúsund tonn af gleri og steinefnum fallið til í Reykjavík og verið urðuð með blönduðum úrgangi í Álfsnesi. Gler er um 5% alls blandaðs úrgangs sem endar í gráum tunnum borgarbúa samkvæmt nýlegri greiningu SORPU bs. á samsetningu úrgangs. Það er því til nokkurs að vinna að flokka það frá.

Endurvinnsla glers borgar sig

Út frá umhverfislegu sjónarhorni borgar sig að flokka, safna, flytja út  og endurvinna gler frá Íslandi. Efla verkfræðistofa vann nýlega mat á umhverfisáhrifum og ávinningi af söfnun, útflutningi, flokkun og endurvinnslu umbúðaglers frá Íslandi með aðferðafræði vistferilsgreiningar (e. Life Cycle Assessment, LCA) fyrir Úrvinnslusjóð og Endurvinnsluna. Niðurstöðurnar voru að flokkun, söfnun, flutningur og endurvinnsla glers borgar sig út frá umhverfisáhrifum í öllum umhverfisáhrifaflokkum.

Söfnun glers viðbót við þjónustu grenndarstöðva

Grenndarstöðvar í Reykjavík eru 57. Árið 2014 söfnuðust í þær 993 tonn af pappír og 70 tonn af plasti. Mest safnast á stöðinni við Bústaðarveg. Á mörgum grenndarstöðvum hafa Bandalag íslenskra skáta og Rauði krossinn komið fyrir söfnunarskápum fyrir drykkjarumbúðir með skilagjaldi og textíl.

Söfnun glers á grenndarstöðvum er því hrein viðbót við þjónustu grenndarstöðvanna. Með samþykkt núgildandi Aðalskipulags Reykjavíkur sem gildir til 2030 var ákveðið að byggja enn frekar upp þjónustu stöðvanna í Reykjavík til að auðvelda flokkun og endurnýtingu endurvinnanlegra efna.