Tilnefnum til Minningarverðlauna Arthurs Morthens

Skóli og frístund

""

Auglýst er eftir tilnefningum til Minningarverðlauna Arthurs Morthens sem veitt eru fyrir grunnskóla­starf í samræmi við stefnu um skóla án aðgreiningar.

Starfið á að einkennast af fjölbreytni og viðurkenningu á mismunandi þörfum nemenda, þar sem allir nemendur taka virkan þátt í skólastarfinu og margbreytileikinn er sýnilegur og virtur.

Arthur Morthens, sem lést árið 2016, helgaði starfsævi sína börnum sem áttu á brattann að sækja og var jafnframt talsmaður þeirra í réttindabaráttu sem oft á tíðum var erfið. Hann vann ötullega gegn einangrun barna með sérþarfir, stóð í fylkingarbrjósti í stefnumótun fyrir mannréttindum þeim til handa og barðist fyrir því að öll börn hefðu sömu tækifæri til náms í skóla án aðgreiningar.

Verðlaunin verða afhent á Öskudagsráðstefnu sem haldin verður 26. febrúar nk. í Hörpu og er þetta í fjórða skipti af fimm sem þessi verðlaun eru afhent. Skólar sem nú þegar hafa fengið verðlaunin eru Fellaskóli (2017), Norðlingaskóli (2018) og Vogaskóli (2019).

Skilafrestur tilnefninga er til 7. febrúar 2020. Allir geta sent inn tilnefningar á: Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, Borgartúni 12-14, 105 Reykjavík eða á netfangið sfs@reykjavik.is.

Sjá tilnefningarblað.