Til hamingju Reykjavík með nýtt Hafnartorg!

Framkvæmdir Mannlíf

""

Dagurinn í dag markar söguleg tímamót fyrir miðborg Reykjavíkur. Fyrsti áfangi Hafnartorgs var opnaður í dag. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins klipptu á borða við formlega opnun í dag. 

Þórdís Lóa óskaði Reykvíkingum til hamingju með þennan glænýja borgarhluta sem var opnaður formlega í dag.  „Hafnartorg tekur hér með við sínu mikilvæga hlutverki í miðborginni - það skapar skemmtilega tengingu gamla miðbæjarins við hafnarsvæðið á sérlega glæsilegan hátt, og teygir miðborgina í raun alla leið vestur á Granda;“ sagði Þórdís Lóa.  „Við getum hiklaust sagt að frá Hafnartorgi, Hörpu og alla leið upp Hverfisgötuna, séum við að byggja upp borg sem er okkur öllum til sóma.“  

Á Hafnartorgi opnaði einnig ný verslun H&M, en beðið hefur verið eftir henni af mikilli eftirvæntingu.  Óhætt er að segja að með henni eykst fjölbreytnin í verslun á þessu svæði.  Forráðamenn Regins leggja áherslu á að skapa á Hafnartorgi einstakt verslunar- og þjónustusvæði til framtíðar með iðandi mannlífi og lifandi göngugötum.   Á næstunni munu svo fleiri spennandi alþjóðlegar verslanir opna á Hafnartorgi auk þess sem um 1.100 bílastæði munu bætast við í kjallaranum undir svæðinu með tengingu við bílakjallara Hörpu.

„Með opnun fjölda nýrra verslana og tilkomu þekktra alþjóðlegra vörumerkja eykst aðdráttarafl miðborgarinnar sem jafnframt skapar fleiri tækifæri til að bjóða upp á fjölbreytta þjónustu á svæðinu.  Við öll sem stöndum að verkefninu höfum gríðarlega trú á því og vitum að miðborg Reykjavíkur mun eflast með tilkomu nýrra og glæsilegra verslunarrýma,“ sagði Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins.

Ætlunin er að Hafnartorg verði að fullu komið í rekstur um miðjan apríl og fyrsti hluti bílakjallarans verði opnaður í desember á þessu ári.