Þrír nýir skólastjórar

""

Ráðið hefur verið í stöðu skólastjóra við grunnskóla Fellaskóla, Hvassaleitisskóla og Selásskóla.

Helgi Gíslason er nýr skólastjóri Fellaskóla en hann hefur starfað sem aðstoðarskólastjóri frá 2017 og verið starfandi skólastjóri frá ársbyrjun 2020.  Helgi lauk B.Ed í grunnskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 1985 og diplóma í sérkennslufræðum árið 1995. Hann lauk meirstaraprófi frá Háskóla Íslands í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á sérkennslufræði. Árið 2018 lauk hann diplóma í uppeldis- og menntunarfræðum frá HÍ með áherslu á stjórnun menntastofnana, verkefnastjórnunun og matsfræði.  Hann hefur starfað sem sérkennslufulltrúi grunnskóla í 10 ár og sem kennari og sérkennslustjóri  frá árinu 1986.

Dagný Kristinsdóttir er nýr skólastjóri Hvassaleitisskóla en hún lauk B.Ed í grunnskólafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2006 og áföngum til BA í íslensku árið 2014. Þá lauk Dagný meistaranámi í forystu og stjórnun frá Háskólanum á Bifröst árið 2018.  Hún stundar nú diplómanám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Dagný hefur starfað sem grunnskólakennari í mörg ár og einnig verið deildarstjóri í grunnskóla. síðastliðið ár hefur hún starfað sem framkvæmdastjóri kennslu og þjónustu við Háskólann á Bifröst.

Rósa Harðardóttir er nýr skólastjóri Selásskóla. Hún lauk B.Ed prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1990 og meistaraprófi í náms- og kennslufræðum árið 2012.  Rósa hefur starfað sem kennari, forstöðumaður skólasafns og verkefnastjóri í upplýsingatækni í 31 ár.