Þrír leikskólar fá hvatningarverðlaun

Skóli og frístund

""

Á fjölsóttri ráðstefnu leikskólastarfsfólks í dag fengu þrír leikskólar hvatningarverðlaun fyrir framúrskarandi fagstarf; Sunnuás, Sunnufold og Skerjagarður. 

Hátt í sex hundruð leikskólastarfsmenn sátu í dag ráðstefnu um lýðræði, sjálfseflingu og þátttöku barna í leikskólastarfinu. Yfirskrift hennar var “Við fáum að ráða nema þegar kennararnir ráða”, en þau ummæli eru frá leikskólabarni sem tók þátt í mótun menntastefnu fyrir Reykjavík fram til ársins 2030.

Á ráðstefnunni voru afhent hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framúrskarandi leikskólastarf og komu þau í hlut þriggja leikskóla; Sunnuáss, Sunnufoldar og Skerjagarðs.

Leikskólinn Sunnuás hlaut verðlaunin fyrir verkefnið Öskudagsbúningagerð sem er árvisst verkefni í skólanum. Í umsögn dómnefndar sagði m.a.: Í þessu verkefni fær sköpunarkraftur barnanna að njóta sín, einstaklingsmiðað, hvert barn fær að ákveða út frá sér hvað þau vilja gera og fá svigrúm og tíma til þess.

Leikskólinn Skerjagarður hlaut hvatningarverðlaunin fyrir fagstarfið sem einkennist af metnaði í leik og starfi. Í umsögn dómnefndar sagði m.a.: Ekki fyrr er séð svona góða útkomu í mati. Er það til mikillar fyrirmyndar. Áhugi  starfsamanna á starfinu kemur vel fram og þekking þeirra er vel nýtt. Skólinn er lærdómsamfélag þar sem bæði börn og starfsfólk læra í leikskólanum.

Leikskólinn Sunnufold hlaut hvatningarverðlaun metnaðarfullt og faglegt leikskólastarf. Í umsögn dómnefndar sagði.:Jákvætt er að tilnefning komi frá foreldri og bent á mikilvægi þess að standa vörð um faglegt starf. Jákvætt að senda þessi skilaboð, að hrósa þeim sem eru að gera vel í starfsmannamálum. Börnin eru í fyrsta sæti og til að þau fái það sem þeim ber í leikskólastarfi þarf að standa vörð um faglega starfið og starfsfólkið þrátt fyrir erfiðar aðstæður, til þess þarf hugrekki, það hefur Fanný leikskólastjóri. 

Það var Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs og Eva Einarsdóttir varaformaður sem afhentu hvatningarverðlaunin, verðlaunagrip hannaðan af listakonunni Ingu Elínu og viðurkenningarskjal. Dómnefnd var skipuð þeim tveimur auk Kristínu Ólafsdóttur, fulltrúi foreldra leikskólabarna, Helgu Ingimarsdóttur, fulltrúafélags leikskólakennara, Sigurði Sigurjónssyni, fulltrúa Félags stjórnenda leikskóla, og Sigríði Marteinsdóttur, verkefnisstjóra hjá SFS.   

Markmið hvatningarverðlaunanna er að vekja athygli á því gróskumikla fagstarfi sem fram fer í leikskólum borgarinnar, veita starfsfólki hvatningu, og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi. 

Leikskólaráðstefnuna í dag sátu hátt í sex hundruð leikskólastarfsmenn og hlýddu þeir á fróðleg erindi hjá þeim Kristínu Karlsdóttur, lektor við Menntavísindasvið HÍ, Fanný Heimisdóttur, leikskólastjóri í Sunnufold, Vöndu Sigurgeirsdóttur, lektors við HÍ og Lenu Sólborgar Valgarðsdóttur og Sögu Stephensen úr leikskólanum Miðborg. Sjá útdrátt úr erindum í ráðstefnugögnum.