Á þriðja hundrað ráðninga auk sumarstarfa -Vinnumarkaðsaðgerðir reynast vel

Atvinnumál

„Það skemmtilegasta við þetta starf er að heyra allar jákvæðu og skemmtilegu sögurnar um fólkið sem fær vinnu og það hvernig við náum að snerta líf fólks með beinum hætti,“ segir Svanhildur Jónsdóttir, stjórnandi Atvinnu- og virknimiðlunar Reykjavíkurborgar.

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti í janúar að veita 460 milljónum króna í vinnu- og virkniaðgerðir. Um er að ræða samstarfsverkefni milli velferðarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs um vinnumiðlun og stuðnings- og virknimiðlun. Markmiðið er að aðstoða fólk sem hefur verið án atvinnu til lengri tíma að komast aftur í virkni og starf.

Reykjavík hefur hingað til ráðið 212 manns en að auki hafa vinnumarkaðsaðgerðirnar skilað 934 viðbótarsumarstörfum fyrir 18 ára og eldri og 200 störfum  fyrir 17 ára einstaklinga, síðustu tvö sumur. „Þetta er tímabundið átaksverkefni, eins og verkefnið Hefjum störf sem heyrir undir Vinnumálastofnun; þarft verkefni eftir Covid 19 til þess að hjálpa fólki að fá vinnu og komast í virkni. Þetta eru tímabundin störf, oftast til sex mánaða, en margir hafa fengið áframhaldandi ráðningu. Oft erum við líka bara að taka fyrstu skrefin í að virkja fólk og koma því í rútínu,“ segir Svanhildur. „Þetta hefur gengið vel. Langflestir eru þakklátir fyrir að við höfum samband og eru áhugasamir að heyra meira um verkefnið.“

Stjórnendur ánægðir með starfsfólkið
Niðurstöður stjórnendakönnunar sem gerð var í september 2021 sýndi ótvíræða ánægju með aðgerðirnar, en könnunin var send öllum stjórnendum sem ráðið hafa starfsfólk í gegnum Atvinnumiðlun Reykjavíkurborgar. 97% svarenda sögðust myndu ráða fólk aftur með þessum hætti og 88% sögðu starfsfólk sem ráðið var í gegnum vinnumarkaðsaðgerðir hafa staðið sig mjög eða frekar vel. Þá voru 93% mjög eða frekar ánægðir með þjónustu Atvinnu- og virknimiðlunar. „Það var líka frábært að sjá hversu margir nefndu að þessir starfsmenn hefðu stuðlað að jákvæðri þróun og komið með nýja þekkingu eða menningu inn á vinnustaðina,“ segir Svanhildur.

Boðið er upp á námskeiðið Út á vinnumarkaðinn. „Það hefur gengið mjög vel og við sjáum þátttakendur eflast mikið. Á námskeiðinu er til dæmis farið yfir hvernig á að gera ferilskrá og undirbúa atvinnuviðtöl. Þá er farið í heimsóknir til fyrirtækja og fjölbreytt störf kynnt fyrir þátttakendum. Þannig uppgötva þeir áhuga á störfum sem þeir höfðu kannski ekki áður. Markmiðið með námskeiðunum okkar er að valdefla, virkja og styrkja einstaklingana.“

Dæmi um fjölbreyttar ráðningar
Svanhildur segir starfið gefandi enda snerta starfsmenn atvinnu- og virknimiðlunarinnar líf fjölmarga með beinum hætti. „Þetta geta verið mikil samskipti við atvinnuleitendur sem enda með ráðningu í starf eða jafnvel bara eitt símtal, sem verður hvatning fyrir viðkomandi til að finna starf. Slíkur árangur er viðbót við allar beinu ráðningarnar sem verkefnið hefur skilað,“ bendir Svanhildur á. Skemmtilegu sögurnar eru margar. „Við höfum til dæmis komist í samband við fólk í skapandi greinum og náð að búa til ný tímabundin störf innan borgarinnar þar sem viðkomandi einstaklingar hafa blómstrað. Við höfum líka ráðið innflytjendur í umönnunarstörf þar sem fólk hefur haft starfsleyfi í sínu heimalandi en þurft að öðlast betri kunnáttu í íslensku til að fá leyfi til að starfa hér á landi. Tímabundin ráðning skilar starfsfólkinu bæði þekkingu og reynslu sem það kannski þarfnast til þess að komast í önnur störf á vinnumarkaðnum. Svo get ég nefnt ráðningar leikskólastarfsmanna sem hafa sama móðurmál og börn á leikskólanum, sem annars hefðu ekki haft neinn talandi á sínu móðurmáli. Slíkar ráðningar styrkja bæði börnin og foreldratengslin,“ segir Svanhildur. „Oft leiðir líka eitt af öðru. Ég veit til dæmis um einstakling sem fékk tímabundna ráðningu í viðhaldsvinnu en í því starfi kynntist hann verktaka sem réði hann svo til sín. Oft er hægt að ná sér í góð meðmæli og gjarnan reynist auðveldara að fá vinnu þegar fólk er þegar í vinnu.“

Áhersla lögð á að finna störf við hæfi hvers og eins
Ávinningur af aðgerðunum er farinn að birtast. Fjöldi notenda með fjárhagsaðstoð hjá borginni fyrstu níu mánuði ársins var 1.256 að meðaltali eða um 29% undir áætlun. Búist er við að til lengri tíma leiði aðgerðirnar til lækkunar útgjalda og sterkari viðspyrnu á vinnumarkaði. „Atvinnuleysi hefur minnkað umtalsvert í Reykjavík og á landinu öllu undanfarna mánuði, sem er virkilega jákvætt,“ segir Svanhildur. „Við erum þó talsvert frá því sem var árið 2018. Þá voru að meðaltali 1.865 atvinnulausir á mánuði í Reykjavík en nú í september voru 4.668 án atvinnu. Atvinnulífið er sem betur fer að lifna við en þessi samfélagslega ábyrgð sem Reykjavíkurborg sýnir með aðgerðunum hefur sitt að segja.“

Atvinnu- og virknimiðlun leitast við að miðla í störf við hæfi og eftir áhuga einstaklingsins. Samstarf er við B-hluta fyrirtæki borgarinnar til að auka fjölbreytileika starfa en einnig hefur fólki verið miðlað í önnur fyrirtæki. „Við höfum reynt að manna kjarnastörfin þar sem þörfin fyrir starfsfólk er mikil, til dæmis á leikskólum og í umönnun,“ segir Svanhildur. „Við leggjum samt áherslu á að fólk fari í störf sem það hefur áhuga á. Stærsti hópurinn sem við erum að vinna með hefur grunnskólapróf en sá næststærsti hefur háskólapróf og þetta er mjög fjölbreyttur hópur hvað varðar til dæmis aldur, menntun og bakgrunn.“

„Ef ég sá spennandi starf auglýst þá sótti ég um“
Kaja Þrastardóttir starfar sem launaráðgjafi í launadeild hjá Reykjavíkurborg. Hún var fyrst ráðin í gegnum vinnumarkaðsaðgerðirnar en er enn í starfi hjá borginni þar sem hún sótti um starf sem var auglýst í hennar deild og var ráðin. „Þegar ég fékk starfið hafði ég verið atvinnulaus í eitt og hálft ár og varla fengið viðtal,“ segir Kaja. „Ég fann að það var bara út af aldrinum. Það er eins og maður sé ónýt kennitala eftir að maður kemst á ákveðinn aldur. Þetta kom mér mjög á óvart því ég veit alveg hvernig ég er til vinnu; dugleg, stundvís og sjaldan veik. Ég hef líka heilmikla reynslu og ágæta menntun. Ég ætti að teljast fyrirmyndarstarfsmaður en viðbrögðin voru aldeilis ekki þannig,“ segir hún með áherslu. Kaja hélt Excel-skjal yfir störfin sem hún sótti um, yfir hundrað talsins en fékk aðeins viðtal í um tíu prósent tilfella. „Ég var ekkert að slæpast við þetta. Ef ég sá spennandi starf auglýst þá sótti ég um og það voru alls konar störf. Í mörgum tilfellum fékk ég ekki einu sinni svar og það finnst mér mjög lélegt. Fólk leggur sig fram við að gera fína ferilskrá, skrifa kynningarbréf og svo framvegis; það er vinna að vera í atvinnuleit! Svo er maður ekki virtur viðlits og það finnst mér mikil óvirðing.“

Eftir menntaskóla tók Kaja diplómanám í viðskipta- og rekstrarfræði í Háskóla Íslands og liggur bakgrunnur hennar í fjármálatengdum verkefnum. Var hún meðal annars framkvæmdastjóri Filmco og vann síðar í fjármáladeild 365 miðla. Hún kveðst afar ánægð sem launaráðgjafi. „Starfið er mjög fjölbreytt sem hentar mér vel. Ég sé til dæmis um launaskráningar, ráðningar, breytingar á samningum o.fl. Ég vinn með frábærum konum og hef alltaf nóg að gera,“ segir hún og bætir hlæjandi við að eitt sinn hafi hún sagt upp starfi þar sem hún hafði ekki næg verkefni. Kaja ber vinnumarkaðsaðgerðunum vel söguna. „Ég fékk vinnu og það er aðalatriðið,“ segir hún með áherslu. „Ég er ánægð með vinnuna og er í rútínu, sem skiptir miklu máli.

Á meðan Kaja var atvinnulaus gætti hún þess að hafa nóg fyrir stafni. „Ég var ekki á neinu flæðiskeri stödd en þetta var farið að angra mig. Það er svo ofboðslega leiðinlegt að hafa ekkert að gera. Ég hélt samt í jákvæðnina. Í hvert sinn sem ég sótti um starf var ég vongóð og hugsaði: „Já, þetta er eitthvað fyrir mig, ég hlýt að fá þetta starf,“ en svo fór það aldrei þannig. Leiðinn stóð samt aldrei lengur en fram að næstu umsókn,“ segir hún. „Ég veit að það hugsa ekki allir svona en ég var ekki orðin mjög svartsýn. Ég hafði trú á að ég myndi fá vinnu en upplifði samt mjög sterkt þessa minnkuðu eftirspurn bara af því ég er komin á ákveðinn aldur og það finnst mér alveg fáránlegt.“

Langar að hjálpa fólki
Mahmoud Abusaada fékk einnig starf í gegnum vinnumarkaðsaðgerðirnar og vinnur sem hjúkrunarfræðingur á Droplaugarstöðum. Rétt eins og Kaja er hann enn í starfi hjá borginni. Mahmoud er frá Palestínu þar sem hann lærði hjúkrunarfræði í sex ár og vann við fagið í fimm ár. „Ég vann á ýmsum sjúkrahúsum, til dæmis á bráðamóttöku, barnadeild og á lyflækningasviði,“ útskýrir hann. „Ég kom til Íslands í fyrra en hóf störf á Droplaugarstöðum í byrjun mars. Fyrsta mánuðinn aðstoðaði ég við sjúkraþjálfun en um mánuði síðar fékk ég hjúkrunarleyfi hér á landi og fór þá til starfa á MND-deildinni sem hjúkrunarfræðingur.“

Mahmoud segir upplifun sína af vinnumarkaðsaðgerðunum góða. „Ég vil byrja á að þakka öllum sem hafa hjálpað mér hér á Íslandi. Ég tel að aðgerðirnar séu góðar til að hjálpa einstaklingum að komast út á vinnumarkaðinn, ekki síst fólki eins og mér því ég er flóttamaður og það er oft mjög erfitt fyrir flóttamenn að fá vinnu eins fljótt og ég gerði,“ segir hann, en Mahmoud hafði leitað vinnu sjálfur í um níu mánuði.

Mahmoud hefur aðeins verið á Íslandi í rúmt ár en viðtalið er þó tekið að miklu leyti á íslensku. Hann stundar íslenskunám við Háskóla Íslands og hefur auðsjáanlega náð góðum árangri. „Það er mjög erfitt að fá vinnu á Íslandi ef maður talar ekki tungumálið,“ segir hann. „Ég lærði íslensku í fimm mánuði áður en ég fór að vinna hérna. Það er mjög erfitt en líka mjög mikilvægt að læra íslenskuna til að aðlagast samfélaginu. Í mínu starfi skiptir líka miklu máli að geta talað við samstarfsfólk og sjúklinga. Ég er búinn að læra mikið en langar að læra miklu meira og dreymir um að ljúka masters- og jafnvel doktorsnámi, á sviði skurð- eða bráðahjúkrunar.“

Áður en Mahmoud kom til Íslands var hann í Egyptalandi, Tyrklandi, Grikklandi og Belgíu svo leiðin hingað var löng og ströng en á stuttum tíma hefur hann komið sér vel fyrir. Hann á bíl en býr í nokkurra mínútna göngufjarlægð frá Droplaugarstöðum og nýtur þess að geta gengið í vinnuna. „Allir eru mjög almennilegir og mér líkar vel hér þótt þetta sé erfitt. Núna einbeiti ég mér bara að vinnunni og því að læra íslensku,“ segir Mahmoud. „Ég er mjög ánægður að hafa fengið starf sem hjúkrunarfræðingur og líkar vel á MND-deildinni. Samstarfsfólk mitt er mjög gott og yfirmenn mínir, ásamt öðrum, hafa reynst mér vel.“

En af hverju skyldi hjúkrunarfræðin hafa orðið fyrir valinu? „Sem barn dreymdi mig um að verða læknir en það reyndist ekki mögulegt. Ég ákvað hins vegar að læra hjúkrun bæði því það var gott fyrir fjölskyldu mína og af því að mér líður vel þegar ég get hjálpað fólki. Ég gat hjálpað fólki mikið í heimalandi mínu og vona að ég geti gert það hérna líka,“ segir Mahmoud að lokum.