Þolendur leita til Bjarkarhlíðar

Mannréttindi

""

Á annað hundrað manns hafa leitað til Bjarkarhlíðar, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis,  frá opnun í mars á þessu ári.

Yfir helmingur mála á borði Bjarkarhlíðar eru vegna heimilisofbeldis (56%) þar sem andlegt-, líkamlegt- og/eða kynferðislegt ofbeldi kom við sögu. Einnig nokkur mál þar sem þjónustuþegar hafa leitað aðstoðar við að komast út úr vændi, sem oft getur verið flókið og viðkvæmt ferli.

langflestir sem leita aðstoðar eru Íslendingar eða 171 einstaklingar. Þeir sem komu frá löndum innan Evrópu voru 15 en utan Evrópu 7 talsins. Af þessum 193 einstaklingum sem nýtt hafa þjónustu Bjarkarhlíðar eru 175 konur og 18 karlar. Flestir eru búsettir í Reykjavík eða 128 en frá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu kom 41 þjónustuþegi en 24 þjónustuþegar komu frá sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins. Annasamasti mánuðurinn til þessa var júlímánuður en þá leituðu 47 sér aðstoðar.

Í Bjarkarhlíð starfar rannsóknarlögreglukona í fullu starfi, kom hún að málum 106 þjónustuþega fyrstu 6 mánuðina. Flestir leituðu til lögreglu vegna heimilisofbeldis (52) en 39 vegna kynferðisofbeldis. Önnur mál voru 15. Lagðar voru fram 36 kærur í framhaldi af viðtali við lögregluna, 11 vegna heimilisofbeldis, 23 vegna kynferðisofbeldis og 2 vegna annarra brota. Leiða má líkum að því að þessar kærur hefðu ekki komið fram ef ekki hefði verið fyrir þjónustu lögreglunnar í Bjarkarhlíð. Þá voru 24 mál þegar komin í kæruferli hjá lögreglunni fyrir viðtalið í Bjarkarhlíð.

Bjarkarhlíð er tilraunaverkefni til þriggja ára og samstarfsverkefni níu aðila sem allir hafa langa reynslu og góða þekkingu á málaflokknum. Þeir aðilar eru Reykjavíkurborg, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, Drekaslóð, Stígamót, Kvennaathvarfið, Mannréttindaskrifstofa Íslands, Kvennaráðgjöfin, velferðarráðuneytið og dómsmálaráðuneytið. Bjarkarhlíð veitir þolendum ofbeldis viðtöl hjá samstarfsaðilum þeim að kostnaðarlausu, á þeirra forsendum.

Tölfræði Bjarkarhlíðar 2. mars - 30. ágúst 2017