Þokuskúlptúrinn kominn í gang

Borgarhönnun

Þokuskúlptúr við Tryggvagötu.

Þokuskúlptúrinn á torginu við Tollhúsið er kominn í gang en hann setur heilmikinn svip á þetta nýja almenningsrými. „Innblásturinn er hafið því listaverkið er sjávarmynd,“ segir Áslaug Traustadóttir landslagsarkitekt en það er mósaíklistaverk Gerðar Helgadóttur sem vakir yfir torginu og gleður gesti og gangandi.

Hugmyndin var í fyrstu að notast við vatn en það þróaðist áfram og úr varð að þarna kæmu þokustútar. Áslaug sá þokuskúlptúr sem þennan í Lyon í Frakklandi en það er líka þekkt að nota svona þokustúta á norðlægum slóðum, til dæmis í Svíþjóð. Úðinn fer ekki hátt upp og eru þetta örfínir dropar sem þarna koma út. Fyrir utan að bjóða upp á leik skapar þetta ákveðna dulúð og stemningu. Slökkt verður á þokuskúlptúrnum á veturna og á nóttunni á sumrin með tímastilli.

Áslaug segir meira frá hönnun nýja sólartorgsins við Tryggvagötu í frétt sem hægt er að lesa hér.

Framkvæmdir við Tryggvagötu eru hluti af því að gera borgina okkar betri, mannvænni, fallegri og aðgengilegri fyrir virka ferðamáta.