Þjónustuver Reykjavíkurborgar á afmæli

Mannlíf Stjórnsýsla

""

Þjónustuver Reykjavíkurborgar fagnar 10 ára afmæli sínu þann 16. ágúst.

Þjónustuverið varð til árið 2008 þegar stór hluti af rekstri borgarinnar var fluttur á Höfðatorg við Borgartún 12 – 14. Fram að þeim tíma voru skrifstofur borgarinnar á víð og dreif um borgina.  Einn viðskiptavinur lýsti því þannig að á þessum tíma hafi verið mjög tímafrekt að útrétta mál og þurfti að fara á marga staði til að fá hin ýmsu leyfi. Nú er hægt að sækja alla þjónustu á einn stað og í því felst aukið hagræði í rekstri og þjónustu við borgarbúa.

Í þjónustuverinu er hægt að fá upplýsingar um starfsemi og þjónustu Reykjavíkurborgar. Þjónustan er  veitt í gegnum síma, vefspjall, tölvupóst og á staðnum. Símsvörun er ýmist afgreidd til fulls hjá þjónustufulltrúa eða send áfram til starfsstöðvar eða sérfræðinga á sviðum/skrifstofum Reykjavíkurborgar. 

Um 200 þúsund íbúar hafa samband við þjónustuverið á ári.  Þetta þýðir að á hverjum virkum degi erum við í sambandi við tæplega þúsund íbúa með einum eða öðrum hætti. Þjónustuverið er því einn mikilvægasti hlekkurinn í þjónustu Reykjavíkurborgar.

Á afmælisdaginn verður gestum og gangandi boðið til veislu í þjónustuverinu. Boðið verður upp á léttan morgunverð, í hádeginu mun jazztríó leika af fingrum fram og léttar veitingar í boði yfir daginn.

Allir velkomnir.