Þjóðhátíð í sumarborginni okkar

Menning og listir Mannlíf

""

Hátíðahöld á 17. júní eru með breyttu sniði í ár vegna COVID-19 veirunnar. Borgarbúar eru hvattir til að halda upp á daginn með vinum og fjölskyldu og skreyta heimili og garða með fánum og öðru í fánalitunum. 

Hefðbundin dagskrá

Morgunathöfn á Austurvelli verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV þar sem allir landsmenn geta fylgst með heima í stofu. Athöfnin er hefðbundin og samanstendur af ávarpi forsætisráðherra og Fjallkonan frumflytur sérsamið ljóð við tilefnið.

Að venju sjá nýstúdentar um að leggja blómsveig við leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur  í Hólavallakirkjugarði að lokinni morgunathöfn á Austurvelli. Forseti borgarstjórnar flytur ávarp og skátar standa heiðursvakt.

Borgin verður skreytt með fánum og blómum.

 

Hönnunarmars í Ráðhúsi

Sýningin Næsta stopp um Borgarlínuna og uppbyggingu hennar er í Ráðhúsinu og hún er tilvalin fyrir alla fjölskylduna þar sem upplýsingum um Borgarlínuverkefnið er komið til skila á skilmerkilegan og skemmtilegan hátt þar sem leikurinn er aldrei langt undan. Komdu í Ráðhúsið og kynntu þér framtíðaráform um byltingu í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Njótum dagsins og finnum fánana!

Við hvetjum borgarbúa til að skreyta hús og híbýli með íslenska fánanum og taka þátt í leiknum Teljum fána. Leikurinn er innblásin af vinsælustu afþreyingu ársins. Á þjóðhátíðardegi teljum við fána í stað bangsa. Vegfarendur geta svo reynt að koma auga á fána í gluggum, görðum, á girðingum eða annars staðar í hverfinu. Tvö heppin hljóta glæsileg og menningarleg verðlaun fyrir fjölda fána. Verðlaunin eru gjafapoki frá Safnbúðum Reykjavíkur, árskort fyrir fjölskylduna í Húsdýragarðinn, aðgangur fyrir tvo í FlyOver Iceland og Menningarkort Reykjavíkur.  Njótum dagsins og finnum fána! Sendu inn fánatölu með nafni og símanúmeri á netfangið 17juni@reykjavik.is fyrir 20. júní nk. og vinningurinn gæti verið þinn.

Heima eða spóka niður í bæ?

Fyrir þá sem ætla að bregða sér niður í bæ þá verður létt stemning í miðborginni frá kl. 13 til 18.  DJ Dóra Júlía sér um tónlist á Klambratúni og gestir geta gætt sér á veitingum úr matarvögnum á vegum Götubitans. Þá mun sirkuslistafólk Hringleiks sýna listir sínar.

Hægt verður að heyra lúðrasveitarþyt í Miðborginni á milli kl. 13-18, sirkuslistafólk Sirkuss Íslands sýnir, kórar, Listhópar Hins hússins og Götuleikhúsið bregða á leik víðsvegar um Miðborgina til að skapa óvæntar upplifanir.  

En eins og sagði í upphafi er fólk eindregið hvatt til að setja upp sína eigin þjóðhátíð með vinum og ættingjum. Grilla, syngja, dansa og uppgötva sirkuslistamanninn í sjálfum sér á heimavelli. Útlit er fyrir tíu stiga hita, lítils háttar skúrum og mildu veðri.

Saga Garðarsdóttur og Katrín Halldóra ætla í skemmtilegum myndskotum að ráðleggja borgarbúum um það hvernig hægt er að halda upp á daginn með pompi og prakt  í sínum garði, götu eða næsta græna svæði í nágrenninu.  Hægt verður að nálgast myndskotin á Facebook síðu 17. júní og Reykjavíkurborgar.

Þá verða sundlaugar í Reykjavík opnar frá kl. 9 til kl. 22  nema Sundhöllin og Laugardalslaug sem verða opnar frá kl. 8 - 22. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verður opinn frá 10-20

Meira á 17juni.is