Þekkir þú Reykvíking ársins 2020?

Menning og listir Mannlíf

""

Borgarstjórinn í Reykjavík óskar nú í tíunda sinn eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking sem verið hefur öðrum til fyrirmyndar. Ábendingarnar verða notaðar til að velja Reykvíking ársins.

Til greina koma aðeins einstaklingar, sem hafa verið til fyrirmyndar eða sýnt af sér háttsemi eða atferli sem kemur Reykjavíkurborg til góða á einhvern hátt.

Slíkur borgari gæti t.d. verið einhver sem hefur haft jákvæð áhrif á lífið í borginni, gert nærumhverfi sínu gott eða hefur gert Reykjavíkurborg gott á undanförnum árum með einhverjum öðrum hætti.

Sú hefð hefur myndast á undanförnum árum að Reykvíkingur ársins rennir fyrstur fyrir lax í Elliðaánum ásamt borgarstjóra í boði Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem hefur árnar á leigu. Í fyrra var Helga Steffensen sem rekið hefur brúðuleikhús fyrir yngstu kynslóðina í borginni í yfir 40 ár valin Reykvíkingur ársins í fyrra og gerði hún sér lítið fyrir og landaði fyrsta laxi sumarsins en Helga varð 85 ára sl. sumar.

„Við veljum nú Reykvíking ársins í 10 sinn. Fjölmargir Reykvíkingar vinna óeigingjarnt starf í þágu borgarinnar án þess að það fari hátt. Þessu fólki  ber að þakka. Ég hvet alla þá sem vita af slíkum einstaklingum að senda inn tilnefningu um Reykvíking ársins 2020, “ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi um það hvers vegna viðkomandi einstaklingur á heiðurinn skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is eða bréflega til skrifstofu borgarstjóra merkt Reykvíkingur ársins fyrir mánudaginn 15. júní.  

Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.