Þekkir þú Reykvíking ársins? | Reykjavíkurborg

Þekkir þú Reykvíking ársins?

mánudagur, 4. júní 2018

Borgarstjórinn í Reykjavík óskar nú í áttunda sinn eftir ábendingum frá borgarbúum um Reykvíking sem verið hefur öðrum til fyrirmyndar. Ábendingarnar verða notaðar til að velja Reykvíking ársins.

  • Reykvíkingur ársins 2017 var Anna Sif Jónsdóttir.
    Reykvíkingur ársins 2017 var Anna Sif Jónsdóttir. Hún fékk heiðursnafnbótina fyrir starf sitt í foreldrafélagi Breiðholtsskóla og félagsmálum í Breiðholti.

Til greina koma aðeins einstaklingar, sem hafa verið til fyrirmyndar eða sýnt af sér háttsemi eða atferli sem kemur Reykjavíkurborg til góða á einhvern hátt.

Slíkur borgari gæti t.d. verið einhver sem heldur borginni hreinni, eða einhver, sem hefur haft jákvæð áhrif á nærumhverfi sitt eða hefur gert Reykjavíkurborg gott á undanförnum árum með einhverjum öðrum hætti en án þess þó að fá greitt fyrir störf sín.

„Það eru fjölmargir fyrirmyndarborgarar sem vinna óeigingjarnt starf í þágu samborgara sinna á degi hverjum með því til dæmis að halda borginni snyrtilegri og fallegri eða vinna gott starf í þágu síns hverfis eða nærumhverfis. Reykvíkingar sem vita af slíkum einstaklingum sem þeir telja að væru vel að þessum heiðri komnir eru hvattir til að senda inn tilnefningu, “ Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

Ábendingar um einstaklinga eru vel þegnar og ber að senda þær inn ásamt rökstuðningi um það hvers vegna viðkomandi einstaklingur á heiðurinn skilinn á netfangið hugmynd@reykjavik.is eða bréflega til skrifstofu borgarstjóra merkt Reykvíkingur ársins fyrir föstudaginn 15. júní 2018.

Þriggja manna dómnefnd velur Reykvíking ársins úr innsendum tillögum.