Þekkir þú hverfishetju Breiðholts?

Velferð Mannlíf

""

Þjónustumiðstöð Breiðholts auglýsir eftir tilnefningum frá íbúum um hverfishetju eða hetjur Breiðhyltinga.

Hægt er að tilnefna einstaklinga, hópa, félög eða fyrirtæki í Breiðholti sem hafa á einhvern hátt verið til fyrirmyndar eða haft jákvæð áhrif á hverfið og hverfisandann.

Markmiðið með verðlaununum er að þakka íbúum fyrir framlag þeirra til hverfisins. Þakka þeim fyrir að efla félagsauð í Breiðholti, auka jákvæðni og hvetja aðra íbúa til samfélagslegrar þátttöku.

Hverfisstjóri, Óskar Dýrmundur Ólafsson, velur fulltrúa íbúa í dómnefnd og saman velja þau hverfishetju/r úr innsendum tilnefningum. Íbúar Breiðholts eru eindregið hvattir til að taka þátt og senda inn tilnefningu um hverfishetju/r og taka þátt í verðlaunaafhendingu í maí.

Athugið að skilafrestur er til mánudagsins 15. apríl.