„Það hafa verið jól hjá mér allt árið!“- Jóladagatal Borgarbókasafnsins og Bókmenntaborgarinnar

Menning og listir

Hrafnhildur Emma Björnsdóttir, Hremma, er höfundur jóladagatals Borgarbókasafnsins 2022
Hrafnhildur Emma Björnsdóttir, Hremma, rithöfundur og listakona, sem samdri jóladagatal Borgarbókasafnsins 2022

Leyndarmál jólasveinanna, björgunarleiðangur og tilraun Grýlu til að læra á snjallsíma eru meðal umfjöllunarefna jóladagatals Borgarbókasafnsins í ár. Við ræddum við höfund þess, sem er svo sannarlega á kafi í jólasögum.

Frá árinu 2016 hefur Borgarbókasafnið birt jóladagatal fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri á miðlum safnsins, í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg Unesco. Ár hvert er efnt til samkeppni þar sem höfundar og teiknarar senda inn hugmynd að næsta dagatali. Fimmtán hugmyndir bárust í samkeppnina að þessu sinni en hlutskörpust varð Hrafnhildur Emma Björnsdóttir, eða Hremma, eins og hún kallar sig, með söguna Jólaævintýri Kötlu og Leós. Hremma er fjölhæf og skrifar hún bæði söguna og teiknar myndir við hana. 

„Ég var að skrifa jóladagatal í Skapandi sumarstörfum hjá Hafnarfjarðarbæ þegar ég sá keppnina auglýsta og fannst tilvalið að senda það inn,“ segir Hremma, en hugmyndin á sér raunar enn lengri aðdraganda eða frá árinu 2018 þegar Hugmyndadagar RÚV auglýstu eftir jólaefni. „Hugmyndin hefur þróast mikið síðan þá. Sjónvarpsefnið varð að bók, síðan að teiknimyndasögu og nú aftur að bók. Lokaverkefnið mitt í diplómanámi í skapandi greinum hjá Háskólanum á Bifröst var handrit að 24 köflum um systkinin Kötlu og Leó. Svo fullvann ég kaflana í Skapandi sumarstöfum og hóf að myndskreyta,“ segir hún. „Sagan fjallar um ævintýri systkinanna Kötlu og Leós og pabba þeirra, Grím og Kára, í aðdraganda jólanna. Fjölskyldan kveikir á fjórum aðventukertum, kaupir jólagjafir í Kringlunni og krakkarnir fá í skóinn frá 13 þekktum bræðrum. Á Þorláksmessu borða þau skötu og á aðfangadag er jólamaturinn klukkan sex, þegar bjöllurnar hafa hringt í útvarpinu.“ 

Við fyrstu sýn virðist um hefðbundið íslenskt jólahald að ræða en Hremma útskýrir að systkinin komist að leyndarmáli jólasveinanna. „Þau uppgötva að jólin eru í hættu. Einnig koma við sögu jarðhræringar, björgunarleiðangur og tilraun Grýlu til að læra á snjallsíma,“ segir Hremma. 

„Það skiptir máli að allir geti speglað sig í sögum“ 

Sagan vakti sérstakan áhuga dómnefndar fyrir frumleika og áhugaverða persónusköpun. Í umsögn nefndarinnar segir að persónurnar séu fjölbreyttar og lifandi og hugað sé að sýnileika hinsegin fólks og einstaklinga af ólíkum uppruna án þess að gera þessi málefni að sérstöku umfjöllunarefni í frásögninni. Sögufléttan sé vel hugsuð, æsispennandi og komi svo sannarlega á óvart. 

„Þegar ég skrifa passa ég mig alltaf á að sýna fjölbreytta mannflóru. Ég vil sýna sterkar kvenpersónur og hversdagslegan hinseginleika í mínum verkum því við eigum meira en nóg af sögum um gagnkynhneigt fólk. Ég er sjálf tvíkynhneigð og það er sorglegt hversu fáar tvíkynhneigðar persónur ég hef séð á skjánum eða lesið um í sögum, aðeins tvær sem ég man eftir en nú bætist Súsí við, en hún er frænka systkinanna. Það skiptir máli að allir geti speglað sig í sögum hvort sem það snýst um uppruna, fjölskyldumynstur, kyn, kynhneigð eða annað,“ segir Hremma. „Einnig vildi ég skrifa íslenskt ævintýri með töfrum og björgunarleiðangri, eitthvað sem ég hefði elskað þegar ég var yngri. Mér fannst virkilega vanta íslenskt jóladagatal um okkar séríslensku jólahefðir. Ekki mörg lönd eiga Grýlu, Leppalúða og 13 jólasveina.“ 

Vinnur að þremur mismunandi jóladagatölum 

Nú má svo sannarlega byrja að hlakka til því á morgun, 1. desember, birtist fyrsti hluti ævintýrisins um Kötlu og Leó á síðu jóladagatalsins. Jóladagatalið verður aðgengilegt á vef Borgarbókasafnsins og Facebooksíðu Borgarbókasafnsins og á vef Bókmenntaborgarinnar og Facebooksíðu Bókmenntaborgarinnar. Þá er sagan lesin inn í hlaðvarp Borgarbókasafnsins

Hremma hyggur á frekari skrif og var að byrja í bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands. „Mig langar að gefa út lengri útgáfu dagatalsins á bókarformi en ég þurfti að stytta söguna fyrir Borgarbókasafnið. Einnig er ég að skrifa annað styttra jóladagatal fyrir Bókasafn Hafnarfjarðar sem kemur út á virkum dögum í desember og svo byrjar sjónvarpsdagatal á Sjónvarpi Símans þar sem ég vann með leikmuni og leikmynd,“ segir Hremma, sem hefur greinilega í nægu að snúast. „Það hafa verið jól hjá mér allt árið!“ 

Hremma heldur úti heimasíðu, Facebooksíðu og síðu á Instagram um verkefnið. Við óskum henni að lokum innilega til hamingju með sigurinn og hlökkum til að hlusta á Jólaævintýri Kötlu og Leós.