Það á að gefa börnum brauð

Menning og listir

""

Taktu daginn frá því Það á að gefa börnum brauð er yfirskrift fjölskylduviðburðar á vegum Borgarsögusafns sem fram fer í Viðey sunnudaginn 24. nóvember kl. 13:30.

Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskólans í Reykjavík kennir gestum réttu handtökin við laufabrauðsgerð.

Að hnoða hveitideig og fletja út í þunnar kökur sem síðan eru skornar út og steiktar er einn af elstu og sérstæðustu jólasiðum þjóðarinnar, en í elstu heimildum frá 18. öld er fjallað um laufabrauðið sem sælgæti Íslendinga. Metnaðurinn við gerð þess fyrr á tímum var jafnvel svo mikill að þeir sem skáru fram úr í listfengi voru lánaðir á milli sveitabæja.

Gestir eru hvattir til að fjölmenna út í Viðey og taka með sér laufabrauðsjárn og hnífa til útskurðar en einhver áhöld verða einnig á staðnum. Brauðin verða steikt á staðnum fyrir þá sem það vilja. Heyrst hefur að jólasveinarnir eigi það til að renna á laufabrauðslyktina í Viðey og koma með glaðning í poka!

Í Viðeyjarstofu verður hægt að kaupa gómsætar veitingar við allra hæfi.

Tíu laufabrauð í öskju kosta 2.250 krónur.  Þeir sem vilja taka þátt verða að skrá sig á videyjarstofa@videyjarstofa.is.

Ferjan siglir til Viðeyjar frá Skarfabakka klukkan 13:15, 14:15, 15:15.

Ferjukostnaður:

  • Fullorðnir 16 ára og eldri: 1.600 krónur
  • Börn 7-15 ára 800 krónur
  • Eldri borgarar og öryrkjar 1.450 krónur