​​​​​​Tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu á Austurvelli

Skóli og frístund Menning og listir

""

Ljósin á Oslóartrénu á Austurvelli verða tendruð sunnudaginn 1. desember klukkan 16.00. Tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu markar upphaf aðventunnar í borginni og minnir sem fyrr á áratuga vinasamband Reykjavíkur og Oslóarborgar.

Dagskráin hefst kl. 15.30, en þá mun Lúðrasveit Reykjavíkur ásamt lúðrasveitinni Sagene Janitsjarkorps frá Osló leika aðventu- og jólalög.

Line Steine Oma borgarfulltrúi í Osló ávarpar samkomuna og afhendir borgarstjóra bókagjöf til allra grunnskóla Reykjavíkur. Um er að ræða fjórar þýddar bækur eftir norska rithöfunda.

Tréð var fellt á svæði Skógræktarfélags Reykjavíkur í Heiðmörk þann 16. nóvember sl. og er um að ræða 14 metra hátt sitkagreni sem er um 54 ára gamalt. Búið er að skreyta tréð með ljósum og óróa Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kveikir síðan á ljósum trésins klukkan 16.00 og nýtur dyggrar aðstoðar Jónasar Hrafns Gunnarssonar norsk-íslensks drengs sem er 7 ára.

Elísabet Ormslev og Sverrir Bergmann flytja falleg jólalög ásamt hljómsveit. Einnig munu jólasveinar stelast í bæinn og syngja og skemmta kátum krökkum.

Kynnir er Katla Margrét Þorgeirsdóttir og verður dagskráin túlkuð á táknmáli.

Viðburðurinn á Facebook

Gleðilega hátíð!