Tendrun Friðarsúlunnar 2020 - beint streymi

Menning og listir Mannréttindi

""

Friðarsúlan í Viðey, listaverk Yoko Ono (f. 1933), verður tendruð í 14. sinn á fæðingardegi tónlistarmannsins Johns Lennon föstudaginn 9. október klukkan 21.00 en hann hefði orðið áttræður á árinu.

 

Friðarsúlan mun varpa ljósi upp í himininn til 8. desember sem er dánardagur Lennons.

Vegna heimsfaraldurs COVID-19 verður enginn viðburður í Viðey í tengslum við tendrunina. Streymt verður beint frá tendruninni þar sem Dagur B. Eggertsson borgarstjóri mun flytja stutt ávarp og að því loknu verður kveikt á Friðarsúlunni.

Beint streymi verður frá tendrun Friðarsúlunnar Klukkan 21.00 á heimasíðu imaginepeace.com, á heimasíðu Reykjavíkurborgar, www.reykjavik.is og á Facebooksíðu Reykjavíkurborgar. Bein útsending verður einnig frá tendruninni í þættinum Vikan með Gísla Marteini á RÚV.

Víðs vegar um heim er Lennons minnst með ýmsum hætti, Empire State byggingin var lýst upp með bláu ljósi og friðarmerkinu í vikunni. Harpa, gerir slíkt hið sama í kvöld, og lýsir glerhjúp sinn upp með bláum lit og friðarmerkinu til heiðurs John Lennon sem hefði orðið 80 ára í dag.

Fólk er hvatt til þess að fylgjast með tendrun Friðarsúlunnar með sínum nánustu og hugsa um frið .

Friðarsúlan - IMAGINE PEACE TOWER

Það var ósk Yoko Ono að súlan risi í Reykjavík þar sem Ísland er friðsamt, herlaust land, staðsett mitt á milli Norður Ameríku og Evrópu. Verkið er í formi „óskabrunns“ þar sem grafið er á orðin „Hugsa sér frið“ á 24 tungumálum. Upp úr brunninum stígur ljóssúla sem er saman sett úr fimmtán geislum sem sameinast í einu sterku ljósi.

Verkið er nátengt öðru listaverki Yoko Ono; Óskatré (e. Wish Tree) frá 1996. Yoko Ono býður fólki  að skrifa persónulegar óskir um frið og hengja á greinar þar til gerðra trjáa sem komið er fyrir á völdum stöðum í heiminum, til dæmis í húsakynnum Listasafns Reykjavíkur ár hvert í tengslum við tendrun Friðarsúlunnar. Óskirnar telja nú yfir eina milljón en þeim er safnað saman og komið fyrir í Friðarsúlunnar. Ljósgeisli súlunnar lýsir svo á táknrænan hátt óskum fólks frá öllum heimshornum upp í himinhvolfið, hvatningarljós friðar og samstöðu.