Sýningaopnun: Hrina og Fantagóðir minjagripir

Mannlíf Menning og listir

""

Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, fimmtudaginn 12. janúar kl. 17.00. Hrina: Vídeóverk úr safneign og sýningin Fantagóðir minjagripir í D-sal eftir Önnu Hrund Másdóttur.

Tvær sýningar verða opnaðar í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi, fimmtudaginn 12. janúar kl. 17.00. Hrina: Vídeóverk úr safneign og sýningin Fantagóðir minjagripir í D-sal eftir Önnu Hrund Másdóttur.

HRINA – leikur, gjörningur, skráning og frásögn
Hrina er viðamikið sýningarverkefni þar sem tekinn verður til sýninga stór hluti þeirra kviku myndverka sem til eru í safneign Listasafns Reykjavíkur. Titill sýningarinnar vísar til þess að verkin verða sýnd í fjórum hrinum og stendur hver þeirra yfir í um það bil einn mánuð. Hrinurnar hafa hver sitt þema sem byggir á nálgun og viðfangsefnum listamannanna. Þemun eru leikur, gjörningur, skráning og frásögn.

Fyrsta hrinan sem hefst nú á fimmtudag ber yfirskriftina LEIKUR. Í henni verða verk eftir listamennina Egil Sæbjörnsson, Erró,Sigrúnu Harðardóttur, Sirru Sigrúnu Sigurðardóttur og Steinu Vasulka. Tæknilega einkennast verkin meðal annars af tilraunakenndri nálgun við miðilinn og rannsókn á þeim möguleikum sem felast í tækninni. Í þessari hrinu verður sýnt verkið Tokyo Four eftir Steinu Vasulka. Steina skipar mikilvægan sess í framvindu vídeólistar enda virkur þátttakandi í hinni alþjóðlegu myndlistarsenu við upphafs- og mótunarár miðilsins, seint á sjöunda áratugnum.

Alls eru verk eftir 22 listamenn á sýningunni.

Samhliða sýningunni verður viðamikil dagskrá í Hafnarhúsinu með samtölum við listamenn og fyrirlestrum um vídeólist og nýmiðla og snertifleti við safneignir og varðveislu til framtíðar. Mikilvægur þáttur í sýningunni lýtur að innra starfi safnsins en á sýningartímabilinu verður unnið að hugmyndalegri og tæknilegri greiningu verkanna og skráningu þeirra.  

Facebook

D29 Anna Hrund Másdóttir: Fantagóðir minjagripir
Tuttugasti og níundi listamaðurinn í D-salarröð Listasafns Reykjavíkur Hafnarhúsi er Anna Hrund Másdóttir. Anna Hrund leitar að listinni í sínu nánasta umhverfi og gerir tilraunir til að sameina undirmeðvitund og íhugun raunverulegum hlutum. Anna Hrund finnur hluti úr ýmiss konar landslagi, geymir þá og flytur milli heimila og heimsálfa. Hún tekur hlutina í sundur og endurraðar, og færir okkur vönd - uppstillingu af uppgötvunum úr raunveruleikanum.

Anna Hrund hefur verið virk í listalífi Reykjavíkur og tekið þátt í ýmsum verkefnum. Hún hélt einkasýninguna Donut Galaxy, Kleinuhringjavetrarbraut, í Listamönnum galleríi árið 2013, tók þátt í samsýningunum LOOK AROUND YOU, EXPERIMENT ONE í Kunstschlager árið 2014 og Nacho Cheese í Kling & Bang galleríi árið 2013. Anna Hrund hefur einnig tekið þátt í samsýningum í Bandaríkjunum, bæði í Los Angeles og Miami.

Sunnudag 22. janúar kl. 15.00 verður Anna Hrund með leiðsögn um sýninguna.

Facebook