Sýning á möguleikum hverfisskipulags

Stjórnsýsla Skipulagsmál

""

Hverfisskipulag fyrir Árbæ hefur tekið gildi. Í dag verður opnuð sýning á möguleikum þess fyrir íbúa.

 

 

 

Þetta eru möguleikarnir sem nýtt hverfisskipulag býr til fyrir íbúa Reykjavíkur
Í dag opnar í afgreiðslu þjónustuvers Reykjavíkurborgar við Borgartún 12 til 14 sýning á möguleikum sem nýtt hverfisskipulag skapar fasteignaeigendum og íbúum í Reykjavík. Hverfisskipulag er nýtt skipulagstæki sem einfaldar mjög breytingar á fasteignum í eldri hverfum borgarinnar. Þeir fasteignaeigendur í Reykjavík sem eru að velta fyrir sér mögulegum breytingum á húsnæði sínu, gera kvist, breyta svölum, byggja við, koma fyrir aukaíbúð eða smáhýsi í garðinum, geta nú ráðist í slíkar framkvæmdir með mun einfaldari undirbúningi gagnvart skipulagsyfirvöldum en áður. Til dæmis heyra nú grenndarkynningar sögunni til í þeim hverfum sem hverfisskipulag hefur verið samþykkt.
Hverfisskipulagið opnar meðal annars möguleika á fjölgun lítilla íbúða við götur þar sem nú eru mörg einbýlis- og raðhús í grónum hverfum því fasteignaeigendur geta fengið heimild til að innrétta aukaíbúðir í húsum sínum með því að byggja við, skipta upp eldra rými eða breyta lítið notuðum bílskúr í litla íbúð.

Samhliða þessum breytingum hefur verið opnuðu svokölluð Hverfasjá þar sem hægt er að slá inn götuheiti og húsnúmer til að skoða hvaða skilmálar gilda um hverfið og viðkomandi fasteign, fá leiðbeiningar um útfærslur á breytingum og  með einföldum hætti sækja um leyfi fyrir framkvæmdunum.

Fyrstu hverfin sem fá hverfisskipulag í Reykjavík eru Ártúnsholt, Árbæjarhverfi og Seláshverfi en öll hverfi borgarinnar munu fá sérstakt hverfisskipulag sem tekur mið af styrkleikum og veikleikum þeirra.

Aldrei hefur verið farið í eins viðamikið samráð við íbúa eins og við gerð hverfisskipulags en þúsundir borgarbúa á öllum aldri hafa  komið að vinnunni, allt frá vinnu grunnskólabarna við módel af hverfunum sínum til einstaklinga sem sitja í rýnihópum.

Sýningin í þjónustuveri Reykjavíkurborgar við Borgartún 12 til 14 er opin frá 15. nóvember og stendur til 6. desember. Opnunartími er kl. 8:20 til 16:15.

Hverfisskipulag og hverfissjá