Sviðslistir fyrir eldri borgara

Velferð Menning og listir

""

Strengur, nýstofnaður sviðslistahópur, mun flakka með farandleiksýningu á milli félagsmiðstöðva eldri borgara í Reykjavík í sumar. Hópurinn mun líka standa að leiklistarnámskeiði fyrir sama aldurshóp.

Strengur er listhópur sem samanstendur af fjórum ungmennum sem stunda öll nám við Sviðshöfundabraut í Listaháskóla Íslands. Þau eru sumarstarfsmenn á velferðarsviði en verkefnið er liður í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar vegna COVID-19. Markmið þess er að nálgast eldri borgara þar sem hver og einn er staddur og nota list til þess að fjalla um hugðarefni þeirra og sögur

Hópurinn miðar að því að skapa sviðsverk sem byggir á hughrifum sem sögur eldri borgara kalla fram. Sýningu sem snýst um að heiðra frásagnarlistina og varðveislu minninga.

Hópurinn hefur þegar kíkt á nokkrar félagsmiðstöðvar með spurningar en þar er m.a. spurt „Hver er tilgangur lífsins?“ „Kanntu á hljóðfæri?“ „Ef þú þyrftir að velja hafið eða fjöllin, hvort myndirðu velja og af hverju?“ Spurningarnar voru allar til þess gerðar að kalla fram sögur og hugleiðingar. Samtölin voru tekin upp og nú vinnur hópurinn að því að skapa sviðsverk sem byggir á minningum aðspurðra.

Verkið er hugsað sem hugljúft ákall til allra kynslóða um að fagna lífinu, sínum sögum og sögum annarra. Verkið er áminning um að hamingjan felist ekki í afrekum hvers og eins heldur tengslunum sem myndast þegar sögur eru sagðar og á þær er hlustað. 

Frumsýning á verkinu verður föstudaginn 19. júní kl. 14 í félagsstarfinu Norðubrún og aðrar sýningar verða auglýstar nánar síðar.

Á leiklistarnámskeiðunum verður unnið með svipuð söguþemu. Hefðbundnar leiklistaræfingar, spunaleikir og hópastarf í bland við endurminningar og nýjar sögur. Markmiðið er að finna skáldskapinn í hversdeginum og gefa minningum nýtt líf í sköpun.  

Meðlimir Strengs eru þau Katrín Guðbjartsdóttir, Magnús Thorlacius, Óðinn Ásbjarnarson og Una Torfadóttir