Styttri vinnuvika í leikskólum

Atvinnumál Mannréttindi

""

Styttri vinnuvika á leikskólum var umfjöllunarefni fundar stýrihóps um tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar sem fram fór í morgun. Fundinn sátu meðal annars fulltrúar frá borgarreknum leikskólunum sem taka þátt í verkefni Reykjavíkurborgar, frá leikskólum Félagsstofnunnar stúdenta, Hjallastefnunni, Kennarasambandinu, BSRB, BHM, ASÍ auk stjórnenda á skóla- og frístundasviði.

Leikskólinn Hof var fyrsti borgarrekni leikskólinn sem stytti vinnuvikuna og hefur skólinn verið hluti af verkefninu frá því haustið 2016. Særún Ármannsdóttir, leikskólastjóri, og Stella Marteinsdóttir, aðstoðarleiksskólastjóri, kynntu framkvæmdina í Hofi, aðdragandann og undirbúning sem fram fór meðal annars við gerð nýs vinnufyrirkomulags, utanumhald og fleira.

Átta leikskólar borgarinnar sóttu í lok síðasta árs um að taka þátt í tilraunaverkefninu. Allar umsóknirnar voru samþykktar en tvær þeirra voru dregnar til baka áður en tilraunatímabilið hófst. Auk Hofs taka leikskólarnir Bakkaborg, Langholt, Sólborg, Nóaborg og Klambra þátt. Á öllum leikskólunum hefur vinnuvikan verið stytt um þrjár klukkustundir fyrir utan Nóaborg þar sem styttingin nemur einni klukkustund á viku.

Stúdentar og Hjallastefnan

Leikskólar Hjallastefnunnar hafa frá og með þessu ári stytt vinnudaginn á öllum sínum starfsstöðum um eina klukkustund á dag. Þórdís Jóna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar, fór kynningu sinni yfir markmið, undirbúning, mælikvarða og árangurinn af verkefninu hingað til.

Félagsstofnun stúdenta rekur þrjá leikskóla og var vinnudagur starfsmanna þar styttur um eina klukkustund á dag frá og með 1. febrúar síðastliðnum. Sigríður Stephensen, leikskólastjóri og leikskólafulltrúi FS, fór yfir markmið sem sett voru í upphafi, árangurinn og framtíðina þar á meðal innan annarra starfseininga innan Félagsstofnunnar stúdenta.

Að lokum ræddi Haraldur Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, um ákorarnir leikskólastigsins og þær hugmyndir sem félagið hefur sett fram og snýr að starfsumhverfi leikskólakennara hvað vinnutíma og starfstíma varðar.

Magnús Már Guðmundsson, formaður stýrihóps sem heldur utan um tilraunaverkefnið, segir að fundurinn hafi verið afar gagnlegur. „Rauður þráður í umræðunum í dag var mikilvægi þess að halda áfram að vinna að þessum samfélagsbreytingum auk þess sem áhugavart var að heyra hversu jákvæð áhrif styttingin hefur haft á vinnumenningu á starfsstöðunum, samstarf milli deilda og aukna ábyrgð deildarstjóra og annarra starfsmanna."

Meira um tilraunaverkefnið um styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg