Stytting vinnuvikunnar áfram reynd í Reykjavík

Velferð Umhverfi

""

Reykjavíkurborg hefur nú fjölgað vinnustöðum hjá borginni sem taka þátt í þeirri tilraun að stytta vinnuvikuna.

Barnavernd og þjónustumiðstöð Árbæjar taka áfram þátt í verkefninu en nú bætast við  hverfa- og verkbækistöðvar umhverfis- og skipulagssviðs. Vinnustaðirnir eru  frábrugðnir hver öðrum  t.d. í samanburði við menntunarstig , kynjahlutfall auk þess sem fjöldi starfsmanna af erlendum uppruna vinnur á hverfa- og verkbækistöðvunum.

Tvær útfærslur eru í gangi á umræddum vinnustöðum, annars vegar er unnið til fjögur á daginn í stað fimm og hins vegar er hætt á hádegi á föstudögum. Tæplega 130 starfsmenn taka þátt í verkefninu sem stendur út mars á næsta ári.

 Í þjónustumiðstöð Árbæjar og hjá Barnavernd, sem hafa tekið þátt verkefninu í rúmt ár er almenn ánægja með styttri vinnuviku.  Starfsmenn segja að þeim líði betur, nái frekar að halda utanum verkefni sín jafnframt því að sinna fjölskyldu og einkalífi.

Notast er við nokkra mælikvarða til að meta framgang verkefnisins hjá hverfa- og verkbækistöðvum. Viðhorfskönnun var lögð fyrir starfsmenn áður en verkefnið fór af stað til að greina  starfsanda og andlega og líkamlega líðan. Könnunin verður svo lögð aftur fyrir í lok verkefnisins. Einnig verður litið til veikindafjarvista og slysaskráninga og gerður samanburður á milli ára. Þá verður athugað hvernig gengur að afgreiða ábendingar af ábendingavef borgarinnar, í samanburði við sama tímabil árin á undan. Verkefnið er unnið í nánu samstarfi við stjórnendur á starfsstöðunum.

Nýr stýrihópur um styttingu vinnuvikunnar hefur verið skipaður  en Líf  Magneudóttir, forseti borgarstjórnar, kemur inn í hópinn í stað Sóleyjar Tómasdóttur og Magnús Már Guðmundsson, borgarfulltrúi, hefur tekið við formennskunni af Sóleyju. Ásamt þeim sitja í stýrihópnum Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi og Helga Jónsdóttir framkvæmdastjóri BSRB.