Styrkur niturdíoxíðs hár á höfuðborgarsvæðinu

Heilbrigðiseftirlit

""

Styrkur niturdíoxíðs (NO2) er hár í borginni um þessar mundir en þessi mengun orsakast á höfuðborgarsvæðinu við bruna efna í bílvélum. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti í dag. 

Styrkur niturdíoxíðs (NO2) er hár í borginni í dag, 19. janúar, samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut og Eiríksgötu. Styrkur niturdíoxíðs fór yfir viðmiðunarmörk fyrir klukkustund, 200 µg/m³, við Hringbraut kl. 10 í morgun. Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti í dag og því umtalsverðar líkur á því að styrkur niturdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk bæði við Hringbraut og við Grensásveg. Sólarhrings heilsuverndarmörkin fyrir niturdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra. Búast má við svipuðum veðurskilyrðum á morgun, laugardag.

Niturdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. Börn og þau sem eru viðkvæm fyrir í öndunarfærum ættu að forðast langa útivist og einnig er skynsamlegt að takmarka áreynslu utandyra þegar styrkur niturdíoxíðs er hár, einkum í nágrenni stórra umferðagatna.

Mengun af völdum köfnunarefnisoxíða á almennt uppruna sinn í iðnaði, orkuverum og frá bílaumferð. Við bruna bæði í bílvélum og í brennslustöðvum, myndast köfnunarefnismónoxíð (NO) þegar köfnunarefni og súrefni hvarfast saman við hátt hitastig. Í andrúmsloftinu oxast köfnunarefnismónoxíð smám saman yfir í köfnunarefnisdíoxíð (NO2). Menginorsökin í Reykjavík er með öðrum orðum rakin til bílaumferðar.

Loftgæði - mælingar

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist náið með loftgæðum borgarinnar og sendir frá sér viðvaranir og leiðbeiningar ef ástæða þykir til. Hægt er að fylgjast með styrk niturdíoxíðs og annarra mengandi efna á loftgæðavef borgarinnar.

Þar má sjá kort yfir mælistaði í Reykjavík. Loftgæðafarstöðvar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur eru nú staðsettar við leikskólann Grænuborg við Eiríksgötu og við Hringbraut 26.

Tengill

Loftgæði í Reykjavík