Styrkir fyrir 22 m.kr. til skóla- og frístundastarfs

Skóli og frístund

""

Skóla- og frístundaráð hefur afgreitt styrki til 43 verkefna í skóla- og frístundastarfi fyrir tæplega 22 milljónir króna. Veittir eru almennir styrkir annars vegar og hins vegar þróunarstyrkir til starfsstaða skóla- og frístundasviðs. 

30 umsóknir bárust um almenna styrki og fengu 10 verkefni styrk fyrir alls um 2,8 milljónir króna. Hæstu styrkina fengu Marion Bronchet (600 þúsund kr.) vegna verkefnisins Segðu mér sögu og Rithöfundasamband Íslands (500 þúsund kr.) fyrir verkefnið Skáld í skólum.

73 umsóknir bárust vegna þróunar- og nýbreytniverkefna í skóla- og frístundastarfi og fengu 33 þeirra styrk. Sérstaklega var óskað eftir umsóknum vegna samstarfsverkefna með áherslu á verk-, tækni- og listgreinar, móðurmálskennslu barna af erlendum uppruna, frístundastarf fyrir alla og lestrarfærni og lesskilning. Meðal áhugaverðra verkefna sem fengu styrk má nefna Læsi í leiðinni sem Grandaskóli og leikskólarnir Gullborg og Ægisborg ætla að vinna að, verkefni um teiknimyndasögur og læsi sem frístundaheimilið Frostheimar mun sjá um og verkefni sem miðar að því að nýta snjalltækni í starfi með tvítyngdum börnum í leikskólanum Ösp. Margir styrkir renna til samstarfsverkefna leikskóla, grunnskóla, frístundamiðstöðva og þjónustumiðstöðva.

Þrjár úthlutunarnefndir sem skipaðar voru fulltrúum kennara/frístundaráðgjafa, stjórnenda, sérfræðinga úr háskólasamfélaginu og starfsmönnum skóla- og frístundasviðs fóru yfir umsóknir sem bárust frá leikskólum, grunnskólum, frístundamiðstöðvum og almenningi. Auk þess lögðu nefndirnar mat á umsóknir um styrki til þróunar- eða samstarfsverkefna þvert á skólastig og stofnanir.

Yfirlit yfir almenna styrki og þróunarstyrki 2015.