Stuðningur við loftslagmarkmið fyrirtækja og stofnana | Reykjavíkurborg

Stuðningur við loftslagmarkmið fyrirtækja og stofnana

miðvikudagur, 9. maí 2018

Reykjavíkurborg og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja undirrituðu í dag samkomulag um sameiginlegan stuðning við loftslagsmarkmið fyrirtækja og stofnana næstu 4 árin (2018 – 2022).

  • Undirritunin fór fram í fersku lofti á Tjarnarbakkanum. Ketill Berg Magnússson, framkvæmdastjóri Festu og Dagur B. Eggertsson
    Undirritunin fór fram í fersku lofti á Tjarnarbakkanum. Ketill Berg Magnússson, framkvæmdastjóri Festu og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

 

Árið 2015 efndu Festa og Reykjavíkurborg til samstarfs við fyrirtæki um að undirrita sameiginlega loftslagsyfirlýsingu til afhendingar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember árið 2015. Fulltrúar 104 íslenskra fyrirtækja undirrituðu yfirlýsingu þess efnis að þeir muni vinna í anda Parísarsamkomulagsins um loftslagsmál.

Samningurinn nú tryggir samstarf Reykjavíkurborgar og Festu til næstu fjögurra ára. Samstarfið felst í þátttöku beggja aðila í kynningu til nýrra fyrirtækja og stofnanna, fræðslustarfi til þátttakenda, þróun á aðferðum til að auðvelda rekstraraðilum að meta gróðurhúsaáhrif sín og mati á árangri loftslagsyfirlýsingarinnar.

Samstarfið hefur núþegar skilað sér í bættum aðferðum fyrir loftslagsmarkmið fyrirtækja og stofnanna. Aðferðin nefnist Loftslagsmælir Festu og stendur hún öllum aðilum í rekstri til boða, bæði ríki og sveitafélögum. Fræðslan felst í að auðvelda fyrirtækjum að greina losun sína á gróðurhúsalofttegundum, setja sér markmið um að minnka losunina og birta reglulega árangur sinn. Festa ber ábyrgð á samskiptum og upplýsingagjöf um fræðslustarfið. Fulltrúar Reykjavíkurborgar taka þátt í þróun, undirbúningi og miðlun fræðslu. Gert er ráð fyrir hið minnsta fjórum fræðsluviðburðum og málþingum á ári. Einn þeirra er árlegur loftslagsfundur Reykjavíkurborgar. Þar eru nýjungar í loftslagsmálum kynntar og nýjum aðilum er boðið að skrifa undir loftslagsyfirlýsinguna. Þátttökugjöld munu standa undir kostnaði vegna fræðslustarfs.

Reglulega verður kannað hvaða fyrirtæki hafa birt loftslagsmarkmið sín og hver árangur þeirra er.