Stuðningur við leigjendur eykst

Velferð

""

Borgarráð hefur samþykkt að hækka stuðning við leigjendur m.a. til að koma til móts við samþykkt ráðsins á 5% hækkun á leiguverði Félagsbústaða. Hækkunin mun  einnig koma tekjulágum leigjendum á almennum markaði til góða.

Á ársgrundvelli nemur hækkun Reykjavíkurborgar á stuðningi rúmlega 200 milljónum auk 91 milljón króna eingreiðslu til leigjenda þar sem hækkunin er að hluta til afturvirk frá áramótum

Hækkun leiguverðs Félagsbústaða er stillt í hóf en 5% hækkun er til þess að tryggja áframhaldandi viðhald og þjónustu eigna. Einnig er það stefna félagsins að nýta ágóða  af rekstri til að fjölga íbúðum og mæta mikilli eftirspurn eftir íbúðum hjá félaginu.

Stuðningur til leigjanda verður hækkaður til að koma til móts við hækkun Félagsbústaða en einnig til að bæta stöðu tekjulágra á almennum leigumarkaði.

Leigjendur mega nú hafa 8,8% hærri heildartekjur án skerðingar á stuðningi. Auk þess er þak á sérstökum húsnæðisstuðningi  hækkað úr 82 þúsundum í 90 þúsund krónur og stuðull til útreikninga hækkar. Leigutakar sem greiða 40 þúsund krónur eða minna í leigu fá hinsvegar ekki greiddan sérstakan húsnæðisstuðning eftir breytinguna.

Breytingar á útreikningum og tekjumörkum eru afturvirkar frá 1. janúar 2017. Leigjendur sem eiga bótarétt fá afturvirka eingreiðslu greidda í byrjun júlí en greitt verður út samkvæmt nýjum reglum frá og með 1. ágúst. Fyrir hópinn sem greiðir 40 þúsund eða minna í leigu þá kemur breytingin til framkvæmda  frá og með  1. september.

Frá áramótum hafa um 2.500 manns fengið  sérstakan húsnæðisstuðning frá Reykjavíkurborg til viðbótar við húsnæðisbætur frá Vinnumálastofnun og nemur upphæðin um einum milljarði króna á ársgrundvelli.

Reglur Reykjavíkurborgar um sérstakan húsnæðisstuðning

Nokkur dæmi um útreikning fyrir og eftir hækkun bæði hjá Félagsbústöðum og á almennum leigumarkaði