Stuðningur við einstæða foreldra í Breiðholti | Reykjavíkurborg

Stuðningur við einstæða foreldra í Breiðholti

miðvikudagur, 17. janúar 2018

Fyrir áramót var endurnýjaður samningur á milli velferðarráðuneytis og velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um áframhald á verkefninu TINNU til tveggja ára en verkefnið þykir hafa skilað góðum árangri. Verkefnið er fyrir unga einstæða foreldra, sem njóta þjónustu hjá þjónustumiðstöðinni í Breiðholti.

  • Fell og Bakkar renna saman frá sjónahorni í Mjóddinni.
    Fell og Bakkar renna saman frá sjónahorni í Mjóddinni.

Tinna, tækifæri til betra lífs, er endurhæfingar- og virkniúrræði sem staðsett er í Fjölskyldumiðstöðinni Gerðubergi og er ætlað einstæðum foreldrum á aldrinum 18 til 30 ára sem hafa notið þjónustu Þjónustumiðstöðvar Breiðholts sex mánuði eða lengur. Í nýjum samningi er gert ráð fyrir fleiri þátttakendum og fjölgun starfsmanna.

Markmið TINNU er að virkja foreldra og styðja þá til sjálfshjálpar. Þátttakendur fá aukið aðgengi að ráðgjöf og stuðningi við að ná betri tökum á tilverunni. Verkefninu er ætlað að auka lífsgæði þátttakenda með því að veita þeim tækifæri til fræðslu, menntunar eða þátttöku á atvinnumarkaði. Hugað er sérstaklega að þörfum barnanna m.t.t. frístunda- og tómstundaúrræða og jákvæðrar samveru barna og foreldra.

Tuttugu og fjórir þátttakendur hafa tekið þátt í TINNU frá því verkefnið fór af stað vorið 2016. Þrír þáttakendur eru formlega útskrifaðir, tveir þátttakendur eru komnir í fulla vinnu, fjórir eru í hlutastarfi og fjórir eru í námi. Einnig hafa þátttakendur sótt í önnur úrræði Reykjavíkurborgar og ríkis samhliða því að vera í TINNU og er gott samstarf við aðrar stofnanir og sérfræðinga.

Þrír félagsráðgjafar starfa að verkefninu og nýr starfsmaður mun bætast við hópinn í þessum mánuði auk þess sem þátttakendum fjölgar um fimmtán en alls verða 35-40 einstæðir foreldrar þátttakendur í verkefninu á næstu tveimur árum.