Stóraukin umferð hjólandi í Reykjavík

Samgöngur Skipulagsmál

""

Hjólað í vinnuna var sett í 18. sinn í dag, miðvikudaginn 6. maí, kl. 8:30 í Þróttaraheimilinu í Laugardal. Búist er við góðri þátttöku þetta árið. Hjólaumferð hefur tvöfaldast eða þrefaldast á völdum stöðum í Reykjavík milli aprílmánaðar 2019 og 2020.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri flutti ávarp ásamt ráðherrum málaflokksins Svandísi Svavarsdóttur, Lilju Alfreðsdóttur, Sigurði Inga Jóhannssyni og Guðmundi Inga Guðbrandssyni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni hjá Ríkislögreglustjóra. Hreyfing var þeim öllum ofarlega í huga og bætt aðstaða fyrir hjólandi og gangandi jafnt á höfuðborgarsvæðinu sem öðrum bæjarfélögum. 

Stóraukin umferð hjólandi 

Samanburður á hjólandi á völdum stöðum í Reykjavík milli áranna 2019 og 2020 sýnir að hlutur hjólandi jókst verulega milli, t.d. úr 11 þúsund í 25 þúsund í Elliðaárdalnum í apríl og úr tæplega 4000 í apríl 2019 við Ægisíðu í rúmlega 24 þúsund í apríl 2020. Fram hefur komið í fréttum að reiðhjól hafi selst vel undanfarið.

Myndin sýnir samanburð á völdum stöðum milli 2019 og 2020.

Hjólastígar

Á sérstökum hjólastígum gilda almennar reglur, dingla ber bjöllum og farið framúr vinstra megin eins og á akbraut. Þegar stígar eru ekki aðskildir hjóla- og göngustígar, þá eru hjólandi gestir á stígunum og ber að fara varlega. Hægriumferð gildir á stígunum og gangandi ráða hraðanum. Hjólin eiga að taka framúr vinstra megin, eins og á venjulegri akbraut, en hraðinn má ekki vera mikill. Umfram allt, förum varlega og sýnum virðingu í umferðinni. 

Aldrei fleiri gangandi

Sömu sögu er að segja um gangandi vegfarendur milli ára, fjöldi þeirra hefur margfaldast.

Hægt er að skoða teljara fyrir hjólandi og gangandi í borgarvefsjá undir umferð.

Tengill 

Hjólað í vinnuna