Stelpur rokka! í Reykjavíkurborg

föstudagur, 12. janúar 2018

Dagur B. Eggertsson og Áslaug Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Stelpur rokka! undirrituðu nýjan samstarfssamning Reykjavíkurborgar við félagasamtökin í morgun. Stelpur rokka! eru sjálfboðaliðasamtök sem starfa eftir femínískri hugsjón til að efla ungar stelpur og trans krakka í gegnum tónlistarsköpun. 

  • Samningurinn handsalaður að lokinni undirskrift
    Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Áslaug Einarsdóttir, framkvæmdastýra Stelpurnar rokka! handsala samninginn að lokinni undirskrift í Ráðhúsi Reykajvíkur í morgun.

Kjarninn í starfinu eru rokksumarbúðir, þar sem þátttakendur læra á hljóðfæri, spila saman í hljómsveit, kynnast farsælum tónlistarkonum, fræðast um ýmsar hliðar tónlistar og jafnréttisbaráttu. Haldnir eru  lokatónleikar þar sem krakkarnir koma fram og spila fyrir vini og fjölskyldu.

Síðastliðin 5 ár hafa yfir 400 stelpur, konur, trans og kynsegin einstaklingar tekið þátt í rokkbúðum Stelpur rokka! og myndað yfir 80 hljómsveitir. Þátttakendur hafa öðlast aukið sjálfstraust, frumkvæði og þor með því að starfa saman og virkja eigin sköpunarhæfileika. Stelpur rokka! vilja með starfi sínu byggja upp mikilvæga fagþekkingu og stuðla að jafnréttismiðuðu tómstundastarfi á Íslandi.

Samningur Reykjavíkurborgar og Stelpur rokka! er til þriggja ára og nemur styrkurinn 4 milljónum króna á ári. Samningurinn tók gildi 1. janúar 2018  og gildir til 31. desember 2020.


Sjá nánar um samtökin á heimasíðu: www.stelpurrokka.org