Stelpur filma á kvikmyndahátíð RIFF

Skóli og frístund

Stemningsmynd frá Stelpur filma á kvikmyndahátíð RIFF

Uppskeruhátíð var hjá verkefninu Stelpur filma! í Bíó Paradís um helgina þegar sýndar voru 9 stuttmyndir sem urðu til á námskeiði í september. 

Myndirnar sem urðu til á Stelpur filma voru allar skotnar undir leiðsögn á vikulöngu námskeiði í Norræna húsinu þar sem margir færustu kvikmyndagerðarmenn landsins lögðu hönd á plóg í fræðslu og hagnýtri leiðsögn. Alls tóku um sjötíu stelpur úr 8. og 9. bekk í níu grunnskólum borgarinnar þátt  í verkefninu.

Megináhersla var lögð á að skapa örugga samveru til að opna á allar gáttir í sköpuninni og voru allar stuttmyndirnar unnar hratt og teknar upp á einni viku. Síðan héldu kvikmyndagerðarstelpurnar heim í sinn skóla með kennara sínum þar sem þær lögðu lokahönd á myndirnar, klipptu þær og hljóðsettu.  

Stelpurnar fögnuðu uppskerunni í Bíó Paradís  á laugardaginn þar sem afrakstur námskeiðsins var frumsýndur. Þar hélt Alexandra Briem borgarfulltrúi stutta ræða og afhenti  stelpurunum viðurkenningu fyrir vl unnið verk ásamt Erlu Stefánsdóttur, verkefnastjóra hjá Mixtúru, margmiðlunarveri skóla- og frístundasviðs. 

Meðal þeirra sem komu að fræðslu í handritagerð, persónusköpun, klippingu og öðru framleiðsluferli í kvikmyndagerðinni á námskeiðinu Stelpur filma! voru: Margrét Jónasdóttir, Valdísi Óskarsdóttui, Nanna Kristín Magnúsdóttir, Margrét Örnólfsdóttir, Baltasar Kormákur, Erla Stefánsdóttir, Anna Sæun Ólafsdóttir og Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir sem sá um jafnréttisfræðslu. 

Verkefnið Stelpur filma! miðar að því að rétta við kynjahallann í íslenskri kvikmyndagerð. Það var unnið í samstarfi Mixtúru margmiðlunarvers og alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík (RIFF).  Barnamenningarsjóður styrkti námskeiðið sem nú var haldið í þriðja sinn.