Steinunn Ása handhafi Kærleikskúlunnar í ár

Menning og listir

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir tekur við Kærleikskúlunni 2022 á Listasafni Reykjavíkur. Með henni er Eva Þengilsdóttir, hugmyndasmiður Kærleikskúlunnar og framkvæmdarstjóri Öryrkjabandalags Íslands.
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir tekur við Kærleikskúlunni 2022 á Listasafni Reykjavíkur. Með henni er Eva Þengilsdóttir, hugmyndasmiður Kærleikskúlunnar og framkvæmdarstjóri Öryrkjabandalags Íslands.

Kærleikskúla Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra var afhent í tuttugasta sinn í Listasafni Reykjavíkur í morgun. Kærleikskúlan er afhent verðugri fyrirmynd á hverju ári og afhenti Eva Þengilsdóttir, hugmyndasmiður Kærleikskúlunnar og framkvæmdarstjóri Öryrkjabandalags Íslands, Steinunni Ásu Þorvaldsdóttur Kærleikskúlu ársins 2022.

Markmiðið með sölu Kærleikskúlunnar er að auðga líf fatlaðra barna og ungmenna og rennur allur ágóði af sölunni óskiptur til sumarbúða Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra í Reykjadal. Ár hvert velur Styrktarfélagið handhafa kúlunnar, einhvern sem hefur með verkum sínum breytt viðhorfum og bætt líf samborgara sinna og samfélag, vakið athygli á mikilvægum gildum og sjálfsögðum réttindum. Steinunn Ása hefur látið til sín taka á mörgum sviðum samfélagsins, eða eins og segir í tilkynningu: „í réttindabaráttu fatlaðs fólks, boðið sig fram til Alþingis til að fylgja eftir hugsjónum sínum, tekist á við stofnanir og stjórnvöld ef þurft hefur og er hún einn af þáttastjórnendum sjónvarpsþáttarins margverðlaunaða Með okkar augum.“ Nýlega kom út bæklingurinn „Saga Steinunnar“ hjá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, þar sem Steinunn Ása starfar, en í bæklingnum rekur hún sína sögu og reynslu af fordómum og ofbeldi.“ 

Karin Sander hannaði Kærleikskúluna 2022

Bjöllukór Tónstofu Valgerðar setti athöfnina með vel völdum jólalögum, Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, blessaði Kærleikskúluna og Ólöf K. Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, kynnti listamann Kærleikskúlunnar í ár, en Listasafnið hefur frá upphafi veitt Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra aðstoð og leiðsögn við val á listamanni Kærleikskúlunnar. „Kúla með stroku“ eftir þýsku listakonuna Karin Sander er Kærleikskúlan í ár en Karin hefur verið viðloðandi íslenskt listalíf síðan snemma á tíunda áratugnum og hafa verk hennar verið sýnd um heim allan. Er hún með fremsta listafólki sinnar kynslóðar og verður hún fulltrúi Sviss á átjánda alþjóðlega arkitektúrtvíæringnum í Feneyjum á næsta ári. Auk hinnar árlegu útgáfu Kærleikskúlunnar hefur Karin Sander einnig útbúið og gefið Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra sérstakt verk sem kemur út í aðeins tuttugu eintökum í tilefni af 20 ára útgáfuári Kærleikskúlunnar. Sérútgáfan verður afhjúpuð föstudaginn 9. desember kl. 17 í i8 gallerí við Tryggvagötu 16.

Sala Kærleikskúlunnar fer fram í völdum verslunum um land allt dagana 8.-23. desember og í netverslun Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, kaerleikskulan.is.

Frá afhendingu Kærleikskúlunnar 2022 í Listasafni Reykjavíkur