Starf sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringar auglýst

Stjórnsýsla Atvinnumál

""

Fjármála- og áhættustýringarsvið er nýtt kjarnasvið sem starfa mun innan nýs stjórnskipulags Reykjavíkurborgar sem tekur gildi 1. júní nk.

Skipulag nýs sviðs er í mótun og mun nýr sviðsstjóri koma að lokaundirbúningi við skipulag sviðsins. Ábyrgðarsvið sviðsstjóra fjármála- og áhættustýringar getur því tekið breytingum þar sem endanleg uppbygging sviðsins liggur ekki fyrir.

Fyrirhugað er að sviðið muni m.a. bera ábyrgð á skipulagi og vinnslu fjárhagsáætlunar, uppgjöri A-hluta og samstæðu Reykjavíkurborgar, vinnslu bókhalds og launa, fjárstýringu og ráðgjöf vegna innkaupa- og útboðsmála, innkaupastýringu og samningsstjórnun, hafa á hendi innra fjárhagslegt eftirlit, greiningu og áhættustýringu í rekstrarumhverfi A-hluta og veita borgarstjóra og borgarráði upplýsingar um rekstur, áhættustýringu og frávik.

Núverandi fjármálaskrifstofa Reykjavíkurborgar verður að stórum hluta uppistaðan í hinu nýja sviði, þ.e. þær deildir sem sinna áætlanagerð, bókhaldi, fjárstýringu, uppgjöri, innkaupum og launavinnslu. Áhættustýring er ný eining sem nýr sviðsstjóri mun móta til framtíðar.

Launakjör sviðsstjóra heyra undir kjaraákvörðun kjaranefndar Reykjavíkurborgar. Sviðsstjóri heyrir beint undir borgarstjóra og um störf hans gilda reglur um réttindi og skyldur stjórnenda hjá Reykjavíkurborg. Ráðið er af borgarráði í starf sviðsstjóra til fimm ára.