Stærri hugmyndir fyrir Hverfið mitt 2020

Samgöngur Velferð

""

Hugmyndasöfnun fyrir lýðræðisverkefnið ,,Hverfið mitt'' hefst í dag 4. nóvember 2020 og stendur til 20. janúar 2021. Nú eru íbúar beðnir um að koma með hugmyndir að dýrari verkefnum enda hefur fjármagn verið nær tvöfaldað.

Þetta er í níunda sinn sem hugmyndasöfnunin fer fram og 787 hugmyndir hafa orðið að veruleika síðan verkefnið hófst. Að þessu sinni stendur hún lengur yfir og er óskað eftir hugmyndum að stærri verkefnum frá íbúum  í hverfunum. Verkefninu hefur nú  verið breytt þannig að það nær yfir tvö ár. Fyrst kemur hugmyndasöfnun en síðan er farið í íbúakosningar um hugmyndirnar.  Með þessu móti gefst tækifæri til að auka samráð við höfunda hugmyndanna og  íbúa í hverfunum, bæði hvað varðar hönnun á verkefnum og framkvæmd þeirra.

Einnig hefur fjármagn í framkvæmdapottinn verið nánast tvöfaldað og verður að þessu sinni  850 milljónir króna í stað 450 milljóna áður.

Hugmyndasmiðir eru hvattir til að skila inn vel unnum hugmyndum í samræmi við forsendur hugmyndasöfnunarinnar. Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri, segir að stærri verkefni kalli á aukið samráð borgarinnar við íbúa „Þar sem óskað er eftir stærri verkefnum í hugmyndasöfnuninni að þessu sinni eru íbúar hvattir til að eiga samtal við nágranna um góðar hugmyndir sem geta nýst hverfinu vel . Þannig koma fleiri að borðinu þegar hugmyndin er í vinnslu og þegar kemur að kosningum á næsta ári á hugmyndin sér fleiri fylgismenn en ella,“ segir Eiríkur Búi. Hann  og samstarfsmenn á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar eru boðin búin að gefa góð ráð og stuðning alla daga á meðan hugmyndavefurinn er opinn.

Stöðugt hefur verið unnið að því að bæta samráðsferlið og auðvelda innsetningu hugmynda á undanförnum árum Auk þess að lýsa hugmynd í orðum er mögulegt að láta ljósmyndir og teikningar fylgja til skýringar. Einnig er  hægt að skila inn hugmynd á myndbandsformi eða sem hljóðupptöku 

Að lokinni hugmyndasöfnuninni þann 20. janúar fer starfsfólk verkefnisins yfir innsendar hugmyndir og haft er samráð við sérfræðinga á viðkomandi sviði innan borgarkerfisins þegar metið er hvort hugmyndir uppfylli reglur verkefnisins.  Til dæmis er haft samráð við eftirtalda aðila:

Samgöngudeild, deild náttúru og garða, skipulagsfulltrúa, borgarsögusafn, borgarlögmann, bóka- og listasöfn, sérfræðinga menningarmála, Skóla- og frístundasvið og Íþrótta- og tómstundasvið. Einnig hefur verið leitað eftir samstarfi út fyrir borgarkerfið eins og til dæmis við SÍM, Samband íslenskra myndlistarmanna. Listinn er ekki tæmandi.

Við mat á hugmyndunum leitar starfsfólk verkefnisins allra leiða til þess að útfæra þær til þess að gera þær tækar til kosninga.  Hugmyndir sem eiga að framkvæmast á svæðum/lóðum sem hafa sérstök hlutverk eins og á íþrótta-, sundlaugar- og skólasvæðum þurfa að vera skoðaðar sérstaklega.

Helstu tímasetningar:

· Hugmyndasöfnun -  4. nóvember 2020 til  20. janúar 2021

· Mat hugmynda, frumhönnun og undirbúningur kosninga  -  janúar til september 2021

· Íbúakosningar um framkvæmdir  -  september til október 2021

· Framkvæmd kosinna hugmynda  -  apríl til september 2022

Hugsum stórt, verum snjöll og verum með. Sendu inn þína hugmynd á www.hverfidmitt.is

Allar nánari upplýsingar um lýðræðisverkefnið Hverfið mitt 2020