„Spennt að takast á við nýjar áskoranir“

Velferð

""

Aðalbjörg Traustadóttir, sem stýrir skrifstofu um málefni fatlaðs fólks á velferðarsviði, tekur tímabundið við stöðu framkvæmdastjóra Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis. Skrifstofa um málefni fatlaðs fólks flytur í heild sinni úr Borgartúni í Efstaleiti. 

Á fundi með starfsfólki þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis í morgun tilkynnti Regína Ásvaldsdóttir, sviðsstjóri velferðarsviðs, að Aðalbjörg Traustadóttir, skrifstofustjóri skrifstofu um málefni fatlaðs fólks, tæki tímabundið við sem framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis samhliða störfum sínum sem skrifstofustjóri. 

Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja til sex mánaða þar sem markmiðið er að samhæfa verkefni skrifstofunnar við þá vinnu sem fer fram á vettvangi þjónustumiðstöðvarinnar, sem er þekkingarmiðstöð í málefnum fatlaðs fólks. Með Aðalbjörgu flyst skrifstofan í heild sinni úr Borgartúni í útvarpshúsið, þau Þórdís Linda Guðmundsdóttir deildarstjóri, Arne Friðrik Karlsson og Ólafía Magnea Hinriksdóttir, leiðandi forstöðumenn og Katrín Harpa Ásgeirsdóttir verkefnisstjóri. 

Um þessar mundir fer fram mótun velferðarstefnu Reykjavíkurborgar og er ráðgert að þeirri vinnu ljúki síðar í haust. Fleiri hundruð notendur, starfsmenn og fulltrúar hagsmunaaðila hafa tekið þátt í könnunum á styrkleikum og veikleikum velferðarþjónustunnar og lagt til hugmyndir að mikilvægum áherslumálum. Tilraunaverkefnið í Laugardal og Háaleiti er að mati sviðsstjóra mjög gott innlegg í mótun stefnunnar og þær aðgerðir sem þarf að ráðast í, í skipulagi og uppbyggingu þjónustunnar, í kjölfarið. 

,,Þjónustumiðstöðin hefur verið skilgreind sem ákveðin þekkingarmiðstöð í málefum fatlaðs fólks en það hefur vantað að þau vinnubrögð sem eru viðhöfð þar yfirfærist sem verklag um alla borg. Á þessum tímum verðum við að nýta sérhvert tækifæri til að breyta og bæta með hagsmuni notenda að leiðarljósi,“ segir Regína Ásvaldsdóttir sviðsstjóri. 

Aðalbjörg er félagsráðgjafi að mennt. Hún hefur tekið virkan þátt í þróun og uppbyggingu félagsþjónustu, meðal annars sem forstöðumaður borgarhlutaskrifstofu félagsþjónustunnar, auk þess að taka þátt í stofnun og þróun þjónustumiðstöðva borgarinnar. Aðalbjörg hefur mikla reynslu af störfum á vettvangi fatlaðs fólks, meðal annars á  stofnunum og sambýlum fyrir fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir, bæði á Íslandi og í Danmörku. Þá hefur hún  verið leiðbeinandi og ráðgjafi í umræðu- og sjálfshjálparhópum fyrir fólk með þroskahömlun. Auk menntunar í félagsráðgjöf hefur hún lagt stund á nám í fjölskylduvinnu og fjölskyldumeðferð og í opinberri stjórnsýslu.

„Ég er mjög spennt að takast á við þessar nýju áskoranir,“ segir Aðalbjörg. „Ég hef starfað í velferðarþjónustu borgarinnar í bráðum 30 ár og gegnt þar ýmsum störfum. Ég hef sterkar taugar til Þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, enda tók ég þátt í stofnun hennar á sínum tíma og var þar framkvæmdastjóri í tíu ár. Ég bind miklar vonir við þá stefnumótunarvinnu sem er í gangi núna og hlakka til að taka þátt í henni. Ég hef mikla trú á að hún muni skila okkur inn í framtíðina. Velferðarþjónusta er mjög mikilvæg og síbreytileg. Það skiptir öllu máli að hún mæti fjölbreyttum þörfum íbúa borgarinnar á hverjum tíma.“