Spænsku veikinnar minnst - málþing, söguganga og minningarstund | Reykjavíkurborg

Spænsku veikinnar minnst - málþing, söguganga og minningarstund

föstudagur, 16. nóvember 2018

„Góðir menn og góðar konur, komið sem allra, allra fyrst“ er yfirskrift málþings um spænsku veikina sem Borgarsögusafn Reykjavíkur stendur fyrir í Iðnó sunnudaginn 18. nóvember kl. 14.

  • Börn og hjúkrunarfólk í spænsku veikinni í Reykjavík. Myndin er sennilega tekin í Barnaskólanum
    Börn og hjúkrunarfólk í spænsku veikinni í Reykjavík. Myndin er sennilega tekin í Barnaskólanum sem var breytt í bráðabirgðasjúkrahús
  • Frostaveturinn mikli 1918
    Frostaveturinn mikli 1918

Liðin eru 100 ár frá því að spænska veikin barst til Íslands en í nóvember 1918 var fyrsta dauðsfall vegna veikinnar skráð í Reykjavík og fjölgaði dauðsföllum gífurlega á afar skömmum tíma. Samkvæmt opinberum tölum létust 484 Íslendingar úr veikinni sem kom þyngst niður á Reykvíkingum, en hægt var að stöðva útbreiðslu hennar með ströngum sóttvörnum og einangrun manna milli landshluta.

Framsögufólk á málþinginu kemur úr röðum sagnfræði og læknavísinda og eru það Bragi Þorgrímur Ólafsson sagnfræðingur, Magnús Gottfreðsson prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum og Erla Dóris Halldórsdóttir gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og doktor í sagnfræði sem taka til máls. Bragi mun fjalla um aðdraganda veikinnar, Magnús segir frá einkennum og afdrifum sjúklinga í heimsfaraldrinum og veltir því upp hvort sambærilegir atburðir gætu endurtekið sig og hver viðbrögð yrðu við því. Að endingu mun Erla Dóris fjalla um áhrif inflúensunnar á konur í Reykjavík í nóvember og desember 1918.

Fundarstjóri er Alma D. Möller landlæknir og um tónlistarflutning sjá Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Hrönn Þráinsdóttir píanóleikari.

Að málþingi loknu verður boðið upp á rjúkandi heitt kaffi og kökubita.

Eftir kaffið klukkan 16:00 mun Gunnar Þór Bjarnason sagnfræðingur leiða sögugöngu frá Iðnó. Gengið verður að Hólavallagarði þar sem Sólveig Ólafsdóttir sagnfræðingur og Heimir Björn Janusarson umsjónarmaður Hólavallagarðs munu segja frá áhrifum veikinnar á garðinn. Gangan endar á minningarstund sem sr. Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur leiðir.

Þátttaka er ókeypis og öllum opin.