Sorphirða um hátíðarnar

Umhverfi

""

Unnið verður af krafti í kringum hátíðarnar í Sorphirðu Reykjavíkur. Úrgangsmagn verður væntanlega í hæstu hæðum og eru borgarbúar hvattir til að flokka og skila til endurvinnslu um jól og áramót. Plastsöfnun hefur aukist verulega á milli ára.

Nú stendur yfir tími neyslu og umbúða en óhjákvæmileg afleiðing er að magn úrgangs eykst. Borgarbúar eru því hvattir til að nýta þá þjónustu sem í boði er hjá Reykjavíkurborg.

Starfsfólk Sorphirðu Reykjavíkur mun leggja sig verulega fram um hátíðarnar en unnið verður lengur en venjulega á milli hátíða. Þá hefjast störfin aftur eldsnemma þann þriðja í jólum og verður unnið stíft út vikuna og á laugardag á milli hátíða og líklega til hádegis á Gamlársdag. Hægt er að sjá hvenær sorphirðan er að störfum við losun á tunnum í hverfum hér: Sorphirðudagatal

Ef það snjóar um hátíðarnar eru borgarbúar hvattir til að moka frá tunnum og tryggja gott aðgengi að þeim. Kaldir dagar geta einnig valdið því að hurðar og læsingar í sorpgeymslum frjósa og þá er gott að nota lásaúða.

Jólapappír og jólaplast

Allur jólapappír á að fara í bláu tunnuna eða í pappírsgám grenndar- og endurvinnslustöðva. Gæta þarf að því að jólaumbúðir séu sannarlega pappír en ekki plast. Munurinn er sá að plastið fer sundur aftur ef því er kuðlað saman. Krulluböndin utan um pakkana eru yfirleitt gerð úr plasti.

Auðvelt er að panta græna og bláa tunnu undir pappírsefni fyrir heimili og einnig er kjörið að skila endurvinnsluefnum á grenndarstöðvar í hverfum og í endurvinnslustöðvar Sorpu. Sjá opnunartíma hér: Opnunartímar

Á grenndarstöðvum eru gámar undir pappír og plast, auk gáma undir gler og dósir með skilagjaldi í umsjá skátanna og undir fatnað á vegum Rauða krossins. Gámar undir gler án skilagjalds eru á 23 stöðum í Reykjavík. Íbúum er bent á að gámarnir geta virðst fullir ef endurvinnsluefnum hefur ekki verið ýtt alveg inn um op þeirra. Tvö op eru á gámunum sem hægt er að stinga endurvinnsluefnum inn um. 

Merktur poki fyrir umframúrgang

Vert er að benda borgarbúum á að fyrir tilfallandi umframúrgang sem ekki er hægt að flokka til endurvinnslu er hægt að kaupa sérmerktan poka á N1 stöðvum undir blandaðan úrgang. Þennan poka sem merktur er Reykjavíkurborg má leggja hjá tunnunum og er hann hirtur um leið og gráa tunnan.

Veruleg aukning á flokkun á plasti á heimilum

Á árinu hafa safnast 236 tonn af plasti í grænu tunnuna en 126 tonn á sama tíma og í fyrra. Þetta eru 109 tonn sem bætast við á milli ára af plasti í grænu tunnuna eða 46% aukning. Þær 57 grenndarstöðvar sem eru innan borgarinnar hafa einnig tekið við 10% meira af plasti það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Hér að neðan er samanburður á plastsöfnun í græna tunnu Reykjavíkurborgar milli mánaða á árunum 2016 og 2017.

 

2016

2017

Mismunur

Janúar

     4.530

   18.290

    13.760

Febrúar

     6.580

   15.730

       9.150

Mars

   10.420

   18.460

       8.040

Apríl

   11.590

   17.250

       5.660

Maí

   10.540

   22.530

    11.990

Júní

   14.700

   21.340

       6.640

Júlí

   12.320

   17.830

       5.510

Ágúst

   12.550

   24.320

    11.770

September

   12.260

   20.680

       8.420

Október

   13.610

   24.150

    10.540

Nóvember

   17.700

   35.460

    17.760

 

Tenglar

Flokkun úrgangs

Sorphirðudagatal

Opnunartímar

Flugeldaleifar

Myndband um starfsemi sorphirðunnar