Sorphirða í Vesturbæ og miðbæ

Umhverfi

""

Sorphirða Reykjavíkurborgar er nú að störfum í Vesturbænum og upp að Snorrabraut að losa blandað heimilissorp, það er gráu tunnurnar.

Á mánudaginn hófst hirða á ný eftir að undanþága fékkst frá verkfallsaðgerðum vegna lýðheilsusjónarmiða. Í vikunni er búið að hirða sorp í Breiðholti, Árbæ, á Kjalarnesi, í Grafarholti og Grafarvogi.

Í framhaldinu, fáist áframhaldandi undanþága frá verkfalli, verður farið í Holt, Tún, Hlíðar, Laugardal, Háaleiti og Bústaði strax eftir helgi. Lýkur þar með hringferð um borgina.

Enn er minnt á mikilvægi þess að íbúar moki frá sorpílátum og tryggi greitt aðgengi að sorpgeymslum.

Sem fyrr er ekki verið að tæma bláu og grænu tunnurnar að svo stöddu. Íbúar geta farið með flokkunarefni á grenndarstöðvar og endurvinnslustöðvar Sorpu.

Tilkynningar um stöðuna hverju sinni er hægt að skoða á sorphirðudagatalssíðunni á vef Reykjavíkurborgar.

Ruslastampar í miðbænum tæmdir

Vinna við stampalosun hófst af fullum krafti klukkan sex á fimmtudagmorgun eftir að undanþága fékkst frá verkfallsaðgerðum. Þessi vinna er í fullum gangi en búið er að tæma stampana í miðbænum.