Söfnum borgarinnar lokað næstu tvær vikurnar

Covid-19 Menning og listir

""

Söfnum Reykjavíkurborgar verður lokað frá og með deginum í dag til og með 19. október í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða vegna COVID-19 - faraldursins.

Ekki var farið fram á lokun safna í nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra en þó er ljóst að fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk hefðu haft mikil áhrif á starfsemina. Staðan verður því endurmetin að tveimur vikum liðnum.

Söfn borgarinnar eru: Borgarbókasafnið, sem er á sex stöðum í borginni, Listasafn Reykjavíkur í Hafnarhúsi, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni auk safna undir hatti Borgarsögusafns sem eru Sjóminjasafn Reykjavíkur, Landnámssýningin við Aðalstræti, Árbæjarsafn og Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Góð aðsókn innlendra gesta hefur verið á söfn borgarinnar undanfarna mánuði og verður tíminn framundan meðal annars nýttur til að skipta út einstaka sýningum, huga sérstaklega að safneign, og öðru innra starfi.

Enn meiri áhersla verður lögð á að sinna nærsamfélagi safnanna næstu misseri og hlakkar starfsfólk til að taka á móti gestum sínum aftur er söfnin verða opnuð að nýju.

Gildistími Menningarkorta Reykjavíkur og bókasafnsskírteina framlengist um sem nemur lokun safna og ekki verða lagðar sektir á safnkost Borgarbókasafns á tímabilinu.

Nánari upplýsingar um sýningar og starfsemi safnanna má finna á heimasíðum þeirra.