Söfn Reykjavíkurborgar verða opnuð í dag

Menning og listir Mannlíf

""

Öll söfn Reykjavíkurborgar verða opnuð aftur í dag eftir að hafa verið lokuð í sex vikur. Af því tilefni verður ókeypis inn á söfnin til 10. maí og handhafar Menningarkorta og bókasafnsskírteina njóta framlengds gildistíma um sex vikur.

Áfram gildir tveggja metra reglan og hámarkið um 50 manns í hverju rými. Einnig verður lögð áhersla á aukin þrif á álagsstöðum, á yfirborði safngagna og aðgengi að spritti.

Um er að ræða Landnámssýninguna í Aðalstræti, Sjóminjasafn Reykjavíkur, Ársbæjarsafn, Ljósmyndasafn Reykjavíkur, Borgarbókasafnið og Listasafn Reykjavíkur, í Hafnarhúsi, Kjarvalsstöðum og Ásmundarsafni. Þá hefjast daglegar siglingar út í Viðey frá og með mánudeginum 11. maí.

Einu undantekningarnar eru Sólheimasafn sem verður lokað aðeins lengur vegna framkvæmda sem og varðskipið Óðinn, sem ekki býr að nægilega stóru rými til að uppfylla reglur um samkomur.

Starfsfólk safnanna hefur nýtt tímann undanfarnar vikur til að sinna ýmsu innra starfi, undirbúa nýjar sýningar og gera breytingar á sýningardagskrá, ásamt því sem lögð hefur verið áhersla á að miðla efni safnanna eftir öðrum leiðum en hingað til, svo sem í gegnum samfélagsmiðla, á strætóskýlum og með því að stilla sýningum upp við stóra glugga.

Nánari upplýsingar um opnunartíma má finna á heimasíðum safnanna, Listasafns Reykjavíkur, Borgarbókasafni og Borgarsögusafni.