Snjöll heimaþjónusta

""

Borgin hefur skrifað undir samning við Curron ehf. um heimaþjónustukerfi (CareOn) sem byggir á svokallaðri velferðartækni.  Með upptöku rafræns heimaþjónustukerfis er Reykjavíkurborg að taka í notkun nýja tækni í velferðarþjónustu til að bæta þjónustu og hag þeirra sem njóta heimaþjónustu frá borginni. Kerfið er nýjung í velferðartækni og þróað í samvinnu Reykjavíkurborgar og hugbúnaðarfyrirtækisins Curron, en þetta þróunarsamstarf hefur staðið yfir vel á þriðja ár.

Heimaþjónustukerfið heldur utan um allt skipulag þjónustunnar; hver á að fá þjónustu, hvenær, hvaða þjónustu, og hvaða starfsmaður á að veita hana. Jafnframt er öll framkvæmd þjónustunnar skráð í rauntíma þannig að frávik koma strax í ljós.

Starfsfólk fær verkefnalista í snjallsíma og rafrænt heimilisauðkenni verður sett inn á hvert heimili sem nemur þegar starfsmenn koma og fara. Þannig  er viðvera starfsfólks skráð  þ.e. hversu langan tíma þjónustan tók og hvaða þjónusta var veitt. Þetta veitir yfirsýn og auðveldar skipulagningu. Reykjavíkurborg vill  með þessari tækni auka þjónustustig heimaþjónustu og að framkvæmd hennar við borgarbúa verði öruggari, auðveldari og markvissari.

Velferðarsvið leggur starfsfólki sínu til farsíma með smáforritinu og fyrirtækið Curron ehf. sér um leiðbeiningar fyrir starfsmenn.  Á árinu 2018 verður CareOn kerfið tekið í notkun fyrir um 800 heimili sem fá heimaþjónustu í Laugardal og Háaleiti.