Snjallsokkar fyrir sykursjúka

Velferð

""
Snjallsokkar fyrir sykursjúka hafa vakið athygli í Norrænu nýsköpunarkeppninni um sjálfstætt líf. Siren sokkarnir, sem eru framlag Dana, eru ein fimm hugmynda sem nú keppa til úrslita í keppni um lausnir í velferðarþjónustu. 
Ran Ma, sem leiðir danska hópinn, heimsótti velferðarsvið til að kynna Siren snjallsokka fyrir sykursjúka. Sykursýki skemmir taugaenda og deyfir tilfinningu þeirra sem eru sýktir í útlimum, sér í lagi fótum.  Þetta getur verið þess valdandi að blöðrur og lítil sár geta haft mjög alvarlegar afleiðingar og í versta falli missir fólk limi.

Sokkar fyrir sykursjúka eða Siren snjallsokkarnir eins og þeir heita, fylgjast með breytingum á hitastigi fótanna og gefa frá sér viðvörun þegar blóðflæði til fótanna er orðið of lágt.  Snjallsokkarnir láta vita af hitabreytingum og áminna einstaklinginn um að líta á fótinn.

Fylgst er með fótunum í gegnum litla rafboða sem skynja fyrstu merki þess að ekki sé allt með felldu . Nemarnir eru of litlir til að valda þeim sem klæðist sokkunum óþægindum  og þeir eru líka vatnsheldir.  Þegar nemarnir skynja breytingu á hita fótanna senda þau viðvörun í snjallsíma eigendanna um að bregðast við breytingunni.

Talið er að með snjallsokkum sé hægt að koma í veg fyrir alvarleg fótamein.  Sokkarnir eru í notkun og útliti ekki ólíkir hverjum öðrum íþróttasokkum. Ran Ma er bjartsýn á að sokkarnir nái vinsældum á næstu árum og geti fækkað tölu þeirra sem kljást við alvarlega fótamein eða aflimun.

Talið er að yfir 400 milljónir manna þjáist að sykursýki og 12% þeirra gætu tapað lim vegna taugaskemmda. Sokkarnir gætu þjónað stórum hópi fólks og haft fyrirbyggjandi áhrif þegar kemur að myndun sára.

Það verður ljóst 6. júní hver sigrar Norrænu verðlaunasamkeppnina um sjálfstætt líf, keppni um tæknilausnir í velferðarþjónustu.