Snjallræðisteymin kynna verkefni sín | Reykjavíkurborg

Snjallræðisteymin kynna verkefni sín

fimmtudagur, 22. nóvember 2018

Lokahóf Snjallræðis, fyrsta hraðalsins fyrir samfélagslega nýsköpun, fer fram fimmtudaginn 22. nóvember kl. 15:00 í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsinu

  • Snjallræðisteymin sem hlutu styrk kynna verkefnin sem þau hafa unnið að undanfarnar 7 vikur
    Alls bárust 40 umsóknir í Snjallræði þetta árið og þau verkefni sem báru sigur úr bítum eru afar fjölbreytt, virkilega metnaðarfull og leita lausna við ólíkum samfélagslegum áskorunum.
  • Snjallræði - samfélagshraðall
    Snjallræði - samfélagshraðall

Snjallræðisteymin sem hlutu styrk kynna verkefnin sem þau hafa unnið að undanfarnar 7 vikur í samstarfi við öflugan hóp mentora og helstu sérfræðinga landsins á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.

Þann 10. október sl. hóf fyrsti íslenski hraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun, Snjallræði, göngu sína. Hraðlinum er ætlað að stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir aukið samfélagslegt frumkvöðlastarf.

Alls bárust 40 umsóknir í Snjallræði þetta árið og þau verkefni sem báru sigur úr bítum eru afar fjölbreytt, virkilega metnaðarfull og leita lausna við ólíkum samfélagslegum áskorunum.

Sjö framúrskarandi verkefni á sviði samfélagslegrar frumkvöðlastarfsemi voru valin til þátttöku og hafa undanfarnar sjö vikur unnið að þróun þeirra á frumkvöðlasetri Skapandi greina við Hlemm. Á sjö vikna tímabili, í október og nóvember, nutu þátttakendurnir stuðnings við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd, ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum Íslands á sviði samfélagslegrar nýsköpunar. 

Verkefnin eru:

Bíllaus lífsstíll, Reykjavík er okkar, Akker - Samfélagshús, Þekkingarmiðstöð í öldrun, Heilun jarðar, Samgönguspor og Móttöku- og meðferðarhús fyrir ungt fólk í vanda.

Landsvirkjun er stoltur bakhjarl Snjallræðis en að hraðlinum standa Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Aðrir samstarfsaðilar eru Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Listaháskóli Íslands, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn í Reykjavík og Icelandic Startups.

Nánar um vinnigsteymin hér