Snjallræði - samfélagshraðall | Reykjavíkurborg

Snjallræði - samfélagshraðall

föstudagur, 27. apríl 2018

Blásið var með formlegum hætti til Snjallræðis við hátíðlega athöfn í Höfða í dag og opnað fyrir umsóknir í fyrsta viðskiptahraðalinn hér á landi þar sem megináherslan er á verkefni í þágu samfélagsins.

 • Hópurinn sem stendur að baki verkefninu stilltu sér upp í góða veðrinu fyrir utan Höfða.
  Hópurinn sem stendur að baki verkefninu stilltu sér upp í góða veðrinu fyrir utan Höfða. (Mynd: Kristinn Ingvarsson)
 • Dagur B. Eggertsson flutti ræðu um mikilvægi samfélaghraðalsins Snjallræðis
  Dagur B. Eggertsson flutti ræðu um mikilvægi samfélaghraðalsins Snjallræðis (Mynd: Kristinn Ingvarsson)
 • Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra skoðar flöskuna Agari en hún er að mestum hluta gerð úr vatni
  Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra skoðar flöskuna Agari en hún er að mestum hluta gerð úr vatni og agar og brotnar niður á örskömmum tíma (Mynd: Kristinn Ingvarsson)
 • Undirritun samningsins (Mynd: Kristinn Ingvarsson)
  Undirritun samningsins (Mynd: Kristinn Ingvarsson)
 • Skynbelti sem er ætlað að veita þeim aðstoð sem hafa ekki skynfæri á borð við sjón eða heyrn
  Skynbelti er ætlað að veita þeim aðstoð sem hafa ekki skynfæri á borð við sjón eða heyrn eða geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið.
 • Munir frá Litla-Hrauni
  Munir frá Litla-Hrauni voru til sýnis en þeir eru afrakstur verkefnis sem hefur verið komið á í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Listaháskólann og fangelsismálayfirvöld. Markmiðið er að veita föngum færi á að öðlast nýja færni sem getur nýst þeim eftir afplánum og hjálpað þeim að fóta sig á ný í samfélaginu.

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Listaháskóli Íslands standa að Snjallræði en framkvæmd verkefnisins er í höndum Höfða friðarseturs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Verkefninu er ætlað að stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir samfélagslegt frumkvöðlastarf. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir atvinnuvega-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Pia Hansson, forstöðumaður Höfða friðarseturs, Fríða Björk Ingvarsdóttir, rektor Listaháskóla Íslands, Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, og Fanney Karlsdóttir, stjórnarformaður Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð fyrirtækja, skrifuðu sameiginlega undir samstarfssamninginn.

Hvað er samfélagshraðall?

Hefðbundið hlutverk viðskiptahraðla (e. business accelerator) er að hraða ferlinu sem fyrirtæki fara í gegnum frá því að hugmynd fæðist og þar til viðskipti taka að blómstra. Samfélagshraðall byggir á svipuðu módeli en grundvallast á sterkri áherslu á samfélagslegan ávinning verkefnanna. Þátttaka í samfélagshraðli felur í sér ókeypis aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu og aðstoð fjölda leiðbeinenda með sérfræðiþekkingu sem nýtist við þróun verkefnanna, s.s. úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Þátttakendum stendur jafnframt til boða þjálfun og fræðsla á meðan hraðallinn stendur yfir. Hraðlinum lýkur með sérstökum fjárfestadegi eða kynningardegi þar sem þátttakendur kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum eða viðeigandi stofnunum og fyrirtækjum. Þeir fá því aðstoð við undirbúning, góð ráð og tengsl við fólk í atvinnulífinu og opinbera geiranum, sem og aðra sem standa í sömu sporum.

Hverjir geta tekið þátt í Snjallræði?

Umsóknarferlið verður opið öllum, jafnt einstaklingum, félagasamtökum og fyrirtækjum. Megináhersla verður lögð á verkefni sem koma til með að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Loftslagsbreytingar, lýðskrum, fordómar og pólitísk sundrung eru meðal þeirra málefna sem móta samfélög og hafa áhrif á framtíðarþróun þeirra. Örum tækninýjungum fylgja einnig miklar samfélagsbreytingar og þær munu setja mark sitt á atvinnuþróun og tækifæri til samfélagsþátttöku hér á landi til framtíðar. Það er því nauðsynlegt að á Íslandi sé til staðar vettvangur fyrir einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki til þess að finna nýjum áskorunum skapandi lausnir í breyttu samfélagi. Efla þarf nýsköpun þvert á fræðasvið og leiða saman þá þekkingu sem finna má í félags- og hugvísindum, raunvísindum, á sviði upplýsingatækni, verkfræði og líftækni, svo dæmi séu tekin. Með því móti er hægt að stuðla að auknum nýjungum m.a. á sviði opinberrar þjónustu, velferðarþjónustu og í umhverfismálum.Sjö verkefni verða valin til þátttöku og fá þau vinnuaðstöðu í Húsi skapandi greina við Hlemm. Á sjö vikna tímabili, í október og nóvember næstkomandi, fá aðstandendur verkefnanna aðgang að hópi leiðbeinenda og stuðning við að þróa hugmyndina áfram. Verkefnin hljóta öll verðlaunafé fyrir þátttöku í hraðlinum og áframhaldandi stuðning frá leiðbeinendum eftir að hraðlinum lýkur.

Samhliða undirrituninni voru til sýnis í Höfða góð dæmi um þá samfélagslegu nýsköpun sem blómstrar nú þegar, m.a. á vegum þeirra aðila sem koma að Snjallræði.

Þórður Jörundsson hönnuður var með muni frá Litla-Hrauni til sýnis en þeir eru afrakstur verkefnis sem hefur verið komið á í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Listaháskólann og fangelsismálayfirvöld. Markmiðið er að veita föngum færi á að öðlast nýja færni sem getur nýst þeim eftir afplánum og hjálpað þeim að fóta sig á ný í samfélaginu.

Ari Jónsson, hönnuður frá Listaháskóla Íslands var með flöskuna Agari til sýnis en hún er að mestum hluta gerð úr vatni og agar og brotnar niður á örskömmum tíma. Flaskan er því umhverfisvæn og mikilvægt framlagt í baráttunni gegn síaukinni plastnotkun.

Rúnar Unnþórsson, prófessor í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, var með Skynbeltið en það er afrakstur vinnu þverfræðilegs hóps sem hefur á að skipa verkfræðingum, sálfræðingum og textílhönnuði. Beltinu er ætlað að veita þeim aðstoð sem hafa ekki skynfæri á borð við sjón eða heyrn eða geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið. Beltið er sett utan um mitti notandans þar sem það nemur upplýsingar úr umhverfinu og miðlar þeim til notanda fyrir tilstilli lítilla mótora sem titra, hver með sínu lagi.