Smitandi hjólakraftur í Norðlingaholti

Heilbrigðiseftirlit Hverfisskipulag

""

Það var kraftur í krökkunum í Norðlingaskóla þegar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri fór í hjólatúr með þeim í tilefni verkefnisins Hjólakrafti. Hjólað var frá Norðlingaskóla að Morgunblaðshúsinu í Móavaði og framhjá golfvellinum í Grafarholti. 

Hjólakraftur í Norðlingskóla er verkefni sem byrjaði vorönn 2016 fyrir nemendur á unglingastigi sem voru, af ýmsum ástæðum, vanvirkir í skólanum. Verkefnið er samstarfsverkefni þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, Hjólakrafts og Norðlingskóla. Haustið 2016 óskuðu foreldrar og kennarar við skólann eftir því að allir nemendur hefðu aðgang að þessu kraftmikla verkefni.

Þetta er liður í því að gera skólann og samfélagið í Norðlingaholti að heilsueflandi grunnskóla og samfélagi. Nemendur voru á negldum dekkjum í vetur og allt samfélagið lagðist á eitt að nýta hjólið til samgöngu- og heilsubótar allt árið. 

Verkefnið sem heilsueflandi samfélag er tengt inn á heimili nemenda og standa íbúasamtök Norðlingaholts fyrir samhjóli öðru hvoru með þátttöku nemenda og foreldra.

Þorvaldur Daníelsson leiðir verkefni en hann hefur hvatt krakka til að prófa hjólreiðar bæði sem íþrótt og sem samgöngumáta tvisvar til þrisvar í viku. Fyrsti hópurinn byrjaði í Reykjavík og núna eru hópar á nokkrum stöðum á landinu.